Bulsur í pretzel

Það er mjög einkennandi bragð af pretzel og fæst það með því að snöggsjóða deigið í basískum vökva. Venjulega er vítissódi, einnig kallaður lútur þegar hann er uppleystur, notaður til að ná þessu fram. Hann er með pH-gildið 14, eins basískur og hægt er, en basískt deig brúnast hraðar og meira heldur en súrt. Þess vegna verða pretzel svo dökkar eftir stuttan bakstur og fá þetta sérstaka bragð.

Mjúkir kanilhnútar

Þegar ég vann á Scandinavian Embassy í Amsterdam lærði ég af norskri vinkonu minni, Kristinu Larsdottur, að gera bestu kanilsnúða, eða réttara sagt kanilhnúta, sem ég hef nokkurn tímann smakkað. Gullinbrúnir, eilítið stökkir að utan, mjúkir að innan og með angan af kardimommum og kanil, eru þeir alveg ómótstæðilegir. Það er ekki hægt að afþakka nýbakaða og volga kanilhnúta með ískaldri nýmjólk.

Óbyggðableikja

Arna Björg og Denni reka fjölbreytta ferðaþjónustu á Óbyggðasetrinu að Egilsstöðum í Fljótsdal. Bæði gegna þau margvíslegum hlutverkum en þau veita ferðamönnum leiðsögn um Óbyggðasafnið og umhverfið við rætur Vatnajökuls, reka gistiheimili og svo þarf að fæða þá fjölmörgu gesti sem koma í heimsókn. Oft er margt um manninn í kvöldmat hjá þeim og gott að geta reitt fram eitthvað einfalt, fljótt en ótrúlega bragðgott. Þegar matur er einfaldur þá er aðalatriðið að nota allra ferskasta hráefni sem völ er á og leyfa því að njóta sín.

Lambatartar

Ýmsar góðar (þjóð)sögur fara af því hvaðan rétturinn er uppruninn og ein þeirra tengir hann hrossakjötsáti Tatara, þjóðarbroti sem tala tungumál af tyrkneska málastofninum. Vegna grimmdar þeirra á öldum áður eiga þeir einnig að hafa verið kallaðir Tartarar (eitt „r“ bætist við) sem er dregið af Tartaros, sem eru hinir myrku undirheimar eða helvíti í grískri goðafræði. Í Íslenskri orðabók er orðið tartari meðal annars skilgreint sem harðlyndur eða viðskotaillur maður, sem og illfygli.

Mugicha

Í Japan kallast þetta te mugicha og er yfirleitt borið fram kalt. Það er vinsæll svaladrykkur á heitum rökum sumardögum en í Kóreu kallast það boricha og er annað hvort borið fram heitt eða kalt. Byggið er ristað með hýðinu á en það er líka hægt að nota perlubygg eða bankabygg, eins og ég geri í þessari uppskrift.

Salatdressing

Einfaldasta gerð salatdressingar er yfirleitt gerð úr olíu; einhverjum súrum vökva, svo sem sítrónusafa eða ediki; salti og pipar. Hið klassíska franska hlutfall olíu og ediks er þrír á móti einum en báðar þungavigtabækur matreiðslunnar, Le guide culinaire og Larousse Gastronomique, tilgreina þetta hlutall. Það er þó ekki heilagt því það fer eftir því hversu bragðsterk olían er, hversu súr vökvinn er, tegund kryddjurta og fleira sem ákvarðar hlutfallið - best er að reiða sig bara á bragðlaukana!

Ábending varðandi spilliforrit!

Við fengum ábendingar um að ekki væri allt með feldu varðandi vefinn okkar www.hidblomlegabu.is. Eftir ítarlega eftirgrennslan kom í ljós að óprúttinn aðili bætti við kóða á síðuna sem birti notendum falska villumeldingu um að uppfæra þyrfti „HoeflerText“ letur og þeir beðnir um að sækja tiltekið forrit og keyra það. Þetta forrit er svokallað spilliforrit (e. malware) og er óljóst hvað það gerir á tölvum notenda en í flestum tilfellum virðist það birta notendum óumbeðnar auglýsingar.

Þessi villumelding birtist eingöngu þeim notendum sem nota bæði Windows stýrikerfið og Chrome vafrann, sem er um fjórðungur gesta vefsins. Á þeim tíma sem vefurinn var sýktur virðist eingöngu lítill hluti vírusvarna grípa spilliforritið og því biðjum þá sem hlóðu því niður og keyrðu það að uppfæra vírusvarnir sínar og skanna tölvur sínar. Þau sem hunsuðu villumeldinguna eða fengu hana aldrei upp á skjáinn þurfa ekki að hafa áhyggjur.

Vefurinn hefur nú verið settur upp á ný frá grunni og allar varnir hans hertar. Við biðjumst velvirðingar á því ef þetta hefur valdið einhverjum óþægindum.

Nánar um spilliforritið.
Nánar um hvernig skal fjarlægja það.

Eldbaka

Sagan segir að bakarar í Suður-Þýskalandi hafi baka Flammkuchen til að athuga hitastigið í ofnunum sínum. Það fer tvennum sögum af því af hverju bakan heitir Flammkuchen, eða eldbaka. Annað hvort að það hafi kviknað í bökunum ef ofninn var of heitur eða að þegar kviknað hafði í jöðrum bökunnar en hún samt fullbökuð þá var hitastig ofnsins fullkomið.

Beikon

Á Íslandi er venjan að reykja með birki og sauðataði - sem skýrist kannski af því að í margar aldir var þetta það eina sem stóð til boða. Erlendis, þar sem kostur trjáa er fjölbreyttari, er ýmis viður notaður, allt eftir því hvaða bragði og lit sóst er eftir. Hikkoríu eða harðhnotu, er mjög algengt að nota til að reykja svínakjöt og er það sem er notað fyrir beikonið í þessari uppskrift.

Bjúgu, uppstúf og kartöflustappa

Í gegnum tíðina hafa ýmis staðbundin orð verið notuð um svera, salta og reykta pylsu. Í dag er orðið bjúga eflaust algengast um land allt en áður fyrr var það talið reykvískt. Sperðill er algengt á Norðurlandi, svo er sunnlenska orðið grjúpán, á Vesturlandi þekkist orðið íspen og einnig langi og endikólfur á Austurlandi.