Ávaxtaleður

Fullþroskuð jarðarber eru algjört lostæti, hvort sem þau eru borðuð ein og sér, með sabayon, léttþeyttum rjóma eða  ábrystum. Annars flokks ber (eða sultuber) eru dúndurgóð á bragðið, þrátt fyrir minniháttar útlitsgalla, og er tilvalið að nota þau í sultur, mauk, síróp og hvað eina, þar sem útlit þeirra skiptir ekki máli. Ein leið til að varðveita mikið magn af jarðarberjum er að gera úr þeim „leður“.  Þá eru berin maukuð, örlitlum sykri eða hunangi ef til vill bætt við, þunnu lagi smurt á bökunarplötu og svo þurrkað við lágan hita – þetta er í rauninni bara þurrkuð sulta! Algengast er að gera leður úr ávöxtun en einnig er hægt að þurrka jógúrt og grænmetismauk á svipaðan hátt.

Áferðin á ávaxtaleðrinu fer allt eftir ávöxtunum, vatnsmagni þeirra, viðbættum sykri og hversu mikið maukið er þurrkað. Þegar sykri er bætt við sætulitla og vatnsmikla ávexti, eins og jarðarber, þá verður leðrið hlaupkennt en pappírskennt ef honum er sleppt. Þar sem uppbygging og náttúrlegt sykurhlutfall ávaxta er misjafnt þá er erfitt að birta eina uppskrift sem gildir fyrir alla ávexti. Hvernig ávextirnir eru maukaðir hefur einnig áhrif á áferð (og útlit) leðursins en það er hægt að mauka þá í grænmetiskvörn, blandara, matvinnsluvél eða með töfrasprota. Hrifnastur er ég leðri maukuðu í grænmetiskvörn. Þá verður áferðin hrjúfari og engu lofti er þá þeytt í maukið, þannig að leðrið verður dekkra á litinn.

Þar sem ég átti töluvert af rabarbara í Árdal þá lék ég mér aðeins með hann áður en ég réðst í að prófa jarðarberjaleður. Eftir tilraunir mínar með rabarbarasultur hér um árið þá kom mér ekki á óvart að rabarbaraleður er tiltölulega bragðlaust, það er súrt á bragðið en það er nær ekkert rabarbarabragð af því. Rabarbarinn er því fullkomið uppfyllingarefni fyrir aðra dýrari ávexti, eins og til dæmis jarðarber, og gerir leðrið seigara undir tönn (sem mér líkar). Það kom mér virkilega á óvart hversu lítið þurfti að jarðarberjum á móti rabarbara til að jarðarberjabragðið skini í gegn.

Innihald

100% jarðarberjaleður
500 grömm sultujarðarber
50 grömm sykur eða hunang (má sleppa)

Rabarbara-jarðarberjaleður
500 grömm rabarbari
100 grömm sykur eða hunang

250 grömm sultujarðarber

Leiðbeiningar

Jarðarberjaleður – Forhitið ofninn í 80°C. Maukið jarðarberin í grænmetiskvörn og leysið sykurinn upp í maukinu.  Leggið smjörpappírsörk í ofnskúffu og smyrjið þunnu lagi af maukinu á hana. Þar sem jaðrarnir þorna hraðar þá eru þeir hafðir þykkari en miðjan. Það er fínt að miða við að miðjan sé 3 millimetrar og jaðrarnir 6 millimetrar. Þurrkið maukið í um 3 tíma. Ef þið búið svo vel um að eiga þurrkofn þá er er hægt að þurrka það við lægri hita, um 60°C, í 5-8 tíma. Litur leðursins heldur sér betur þannig.

Rabarbara-jarðarberjaleður – Aðferðin er alveg eins og við jarðarberjaleðrið nema að það þarf að elda rabarbarann fyrst. Skerið rabarbarann í 2 sentímetra bita og setjið í pott með sykrinum og botnfylli af vatni. Náið upp suðunni, lækkið niður í miðlungshita og eldið rabarbarann í 10 mínútur eða þar til hann er orðinn mjúkur. Passið að sykurinn karamellist ekki. Látið rabarbarann kólna aðeins og maukið hann svo með jarðarberjunum í grænmetiskvörn.