Blandað blaðsalat með volgum geitaosti

salat-geitaostur

Þetta er í sjálfum sér frekar einfalt salat: blandað blaðsalat velt úr salatdressingu og borið fram með volgum geitaosti. Þegar maturinn er svona einfaldur þá skiptir ferskleiki hráefnisins enn meira máli en ella og ekki er verra að salatið og kryddjurtirnar komi úr manns eigin garði.

Þetta salat er byggt á uppskrift Alice Waters frá Chez Panisse.

Fyrir fjóra

Innihald

Geitaostur
Væn lúka af blönduðum ferskum kryddjurtum, til dæmis myntu, timjani, steinselju og oreganó, saxaðar smátt
4 medalíur af geitaosti, sem eru 5 sentímetrar í þvermál og 2 sentímetrar þykkar
4 matskeiðar jómfrúarolía
100 grömm góð brauðmylsna
¼ teskeið salt

Salat
1 hvítlauksgeiri
¼ teskeið salt
½ teskeið dijon sinnep
2 matskeiðar rauðvínsedik
⅛ teskeið pipar
4 matskeiðar jómfrúarolía
250 grömm blandað blaðsalat

Leiðbeiningar

  1. Geitaostur – Stráið helmingi kryddjurtanna á disk, leggið geitaostinn ofan á og stráið restinni af kryddjurtunum yfir ostinn. Sáldrið jómfrúarolíunni yfir og látið ostinn marinerast á meðan þið gerið salatdressinguna eða í allt að tvo daga. Blandið saman brauðmylsnu og salti. Veltið marineruðum geitaostinum vel upp  brauðmylsnunni og bakið í 200°C heitum ofni í 5-10 mínútur eða þar til osturinn er heitur í gegn og mjúkur viðkomu.
  2. Salatdressing – Maukið hvítlauksgeira og salt í mortéli og hrærið síðan sinnepi, rauðvínsediki og pipar saman við. Hellið jómfrúarolíunni í mjórri bunu í mortélið á meðan þið hrærið stöðugt í þannig að úr verði þeyta.
  3. Rétt áður en salatið er borið fram er því velt upp úr salatdressingunni og borið fram með volgum geitaostinum.