Breskar skonsur

breskar-skonsur

Mör er ekki mikið notaður í bakstur á Íslandi nú til dags og er hann kannski aðallega bræddur í tólg og hún notuð til að steikja kleinur. En víða erlendir er dýrafita notuð í bakstur, til dæmis í smákökur og bökubotna. Í þessari uppskrift nota ég mörinn til að gera breskar skonsur.  Þær eru ólíkar þeim íslensku, sem eru meira eins og þykkar pönnukökur, og líkjast helst tebollum.

Það er hægt að nota smjör í stað mörsins í þessari uppskrift og verð ég að viðurkenna að mér þykir það betra. Það hefur eflaust að gera með það að í smjöri er meira vatn en í mör, fimmtán prósent á móti þremur prósentum. Þegar skonsurnar bakast gufar þetta vatn upp og lyftir þeim, meira vatn þýðir meiri lyftingu. Til að ná fram þessari lyftingu er mikilvægt er að feitin sé ísköld og í örlitlum bitum í deiginu þegar það fer inn í ofn. Með því að rífa frosna feiti þá býr maður til þunnar flögur sem dreifast mjög jafnt um allt deigið. Feitiflögurnar mynda lítil hólf þegar þær bráðna og vatnið gufar upp og skonsurnar verða flögóttar og loftmiklar.

Hita- og rakastigið í eldhúsinu getur haft mikil áhrif þegar köld feiti er notuð í bakstur. Til að koma í veg fyrir feitin bráðni í deiginu áður en það er sett inn í ofn þá er mikilvægt að halda bæði hráefnum og áhöldum köldum í gegnum allt ferlið, sérstaklega ef mjög heitt er í eldhúsinu. Ef deigið er of lint og klístrað getur þurft að kæla það, eða frysta í stutta stund, áður en það er flatt út.

Í 8 skonsur

Innihald

100 grömm nýrnamör (eða smjör), frosinn
300 grömm hveiti
100 grömm sykur
1 matskeið lyftiduft
½ teskeið salt
200 millilítrar ísköld mjólk

Leiðbeiningar

  1. Forhitið ofn í 200°C. Rífið frosinn nýrnamör (eða smjör) á stærstu götunum á rifjárni og setjið aftur í frysti. Blandið öllum þurrefnum saman í stórri skál,  hrærið frosnum mörnum saman við þannig að allar flögurnar húðist hveiti og bætið loks við ískaldri mjólk. Hrærið deigið saman með sleif og þegar það er orðið of þykkt notið hendurnar til að hnoða það saman. Því minna sem unnið er með deigið því mýkri verða skonsurnar.
  2. Setjið deigið á vel hveitistráið borð og fletjið út í 30 sentímetra ferning. Ef það er mjög heitt inn í eldhúsinu og deigið virkar blautt þá er hægt að fletja það fyrst út í 10 sentímetra ferning, frysta í 5 mínútur og fletja síðan út í 30 sentímetra ferning. Á þessum tímapunkti er hægt að fylla skonsurnar með nánast hverju sem er, til dæmis berjum, súkkulaði eða rúsínum, og er þá fyllingunni stráð jafnt yfir allt deigið.
  3. Notið deigsköfu til að rúlla deiginu í þéttan sívalning. Snúið honum þannig að samskeytin séu niður og fletjið hann varlega í ferhyrning er 30 sentímetra langur og 10 sentímetra breiður. Sáldrið hveiti á beittan hníf og skiptið deiginu í 4 jafnstóra ferninga. Skerið hvern ferning horn í horn þannig að úr verði 8 þríhyrningar.
  4. Leggið skonsurnar á ofnplötu með bökunarpappír, penslið með mjólk og bakið í um 20 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar bæði að ofan og neðan. Berið fram með góðri sultu og hleyptum rjóma.