Hið blómlega bú á DVD

Hið blómlega bú er sjónvarpsþáttaröð um kokkinn Árna sem lætur draum sinn um líf í íslenskri sveitasælu verða að veruleika. Árni flýr amstur borgarinnar og sest að á lítilli bújörð, Árdal í Borgarfirði. Úr því hráefni sem Árni framleiðir á jörðinni sinni eða útvegar sér í nærliggjandi sveitum, matreiðir hann ljúffenga rétti. Auk réttanna er mikil áhersla lögð á hráefnið, eiginleika þess og notagildi. Árni gerir meðal annars osta, pylsur og sultur og leitast við að nýta það sem býðst úr matarkistu sveitarinnar.

Þar sem Árni er nýgræðingur í sveitinni leitar hann á náðir nágranna sinna, bændanna í kring um upplýsingar og handleiðslu. Þannig kynnist áhorfandinn íslenskum landbúnaði, möguleikum hans og fjölbreytni um leið og Árni viðar að sér fróðleik og hráefni í ljúfa rétti.

Hið blómlega bú. er matreiðsluþáttur sem skemmtir áhorfendum með áhugaverðri sögu um ungan og óreyndan bónda á smábýli og um leið kynnir íslenska matarmenningu og landbúnað á 21. öld. Árni eldar fjölbreytta rétti úr íslensku hráefni, séríslenska rétti í bland við nútímalega matargerð.

AÐSTANDENDUR

Fólkið sem stendur að Hinu blómlega búi eru þau Bryndís Geirsdóttir, Guðni Páll Sæmundsson og Árni Ólafur Jónsson.

„Yndisauki í hversdagsamstrinu er bragð- og staðgóður matur. Hreint og gott hráefni sem unnið er með af áhuga og virðingu á öllum stigum er undirstaða úrvals matseldar.“ -Bryndís

Guðni Páll og Bryndís eru hjón sem hafa óseðjandi áhuga á matreiðslu og eru sannfærð um að undirstaða vel hepnaðrar máltíðar sé gott hráefni. Þau bera gæfu til að hafa fengið að kynnast sveitalífi, Bryndís á uppvaxtarárum sínum í Borgarfirði og Guðni Páll þegar hann vann að kvikmyndagerð í Dölunum. Þau höfðu um árabil gengið með þann draum að gera sjónvarpsþátt á borð við Hið blómlega bú.

„Við veltum því mikið fyrir okkur hvernig mætti veita ókunnugum innsýn inn í sveitalífið. Hvatinn var reyna að tengja betur milli fólksins sem framleiðir afurðir og þess sem nýtur þeirra. Við fengum ýmsar útfærsluhugmyndir áður en við komumst niður á hugmyndina sem Hið blómlega bú. þróaðist úr. Allar lutu þær að því að fá einstaklinga sem ókunnugir eru sveitinni til þess að spreyta sig í nýju umhverfi. Svo að þeir sem eru ókunnugir sveitinni geti sett sig í spor söguhetjunnar.“ -Guðni

AFDRIFARÍK ÁRAMÓT

Áramótin 2011 – 2012 hittu Guðni Páll og Bryndís Árna fyrir hálfgerða tilviljun. Árni var þá búinn að læra matreiðslu við hinn virta skóla The French Culinary Institute (FCI) í New York og var mikill áhugamaður um gott og ferskt hráefni enda tíður gestur á dásamlegum bændamörkuðum Manhattan, þar sem hann bjó.

Eftir skemmtilegar samræður um matarmenningu og hefðir, hráefni og landbúnað fóru hjólin af stað. Stuttu seinna var afráðið að leggja upp í þá krefjandi og skemmtilegu vegferð sem verkefnið Hið blómlega bú. er. Árni sagði upp vinnunni sinni á Manhattan og dreif sig upp í Borgarfjörð á vit ævintýranna, Bryndís og Guðni sömuleiðis og síðan hafa þau öll unnið að þessu mjög svo hjartfólgna verkefni sínu.

Við ákváðum öll að taka stökkið og láta drauminn okkar rætast!

Fyrir okkur snýst eldamennska ekki eingöngu um það sem gerist í eldhúsinu heldur einnig um að þekkja hráefnið sem unnið er með og sögu þess. Möguleikarnir sem eru fyrir hendi í sveitinni í kringum mann eru margir og spennandi. Okkur finnst mikilvægt að það sé borin virðing fyrir hráefninu, gæðum þess og fólkinu sem sér um að framleiða það, auk þess að viðhalda gömlum vinnsluaðferðum sem byggja á að nýta allt hráefni til fullnustu. Það er mjög spennandi að læra hvernig forfeðurnir okkar fóru með hráefnið af þekkingu og skilningi og spyrna þeim aðferðum saman við nútíma þekkingu.

BAK VIÐ TJÖLDIN

„Vinnan við þættina hefur gengið mjög vel. Við komum okkur fyrir í Árdal í Borgarfirði í maí á síðasta ári og ræktuðum þar myndarlegan matjurtagarð og héldum úti örlitlum búskap. Við vorum til dæmis með mjólkurkú, nokkrar ær, tvö svín og hænur. Við hefðu vart geta fundið okkur betri staðsetningu því fólkið hér í sveitinni hefur tekið okkur opnum örmum og án þeirra hefðu þessir þættir aldrei orðið að veruleika. Við heimsóttum marga bæi hér í sveitinni, kynntumst því sem þar fór fram og fengum ráðleggingar og hjálp.“ -Guðni

„Það sem kom mér mest á óvart var hvað það er mikill fjölbreytileiki hér í sveitinni og hversu miklir möguleikar eru fyrir hendi til að framleiða fjölbreytt og gott hráefni sem og fullunnar vörur. Möguleikarnir í ylrækt virðast til að mynda óþrjótandi og margir bændur eru duglegir að kanna þá og framleiða afbragðs vöru. Ég kynntist meðal annars mjólkurbúskap í Brekkukoti, kornrækt í Ásgarði, grænmetisrækt í Sólbyrgi og býflugnarækt í Rauðsgili. Ég var sífellt að rekast á eitthvað hér í sveitinni sem kom mér á óvart og mig hafði einhvern veginn aldrei grunað að sveitin væri svona fjölskrúðug. Það eru greinilega miklir möguleikar fyrir hendi hér á landi og mér finnst nauðsynlegt að ýtt sé undir frumkvöðlastarfsemi í sveitum landsins.“ -Árni

AÐ LOKUM

Við lifum á mögnuðum tímum. Umskiptin sem kynslóðirnar upplifðu á síðustu öld eru svo stórkostleg að hugsunin nær vart yfir það. Nú er allt í einu komin upp kynslóð á Íslandi, í fyrsta sinn í sögunni, sem hvorki hefur tengsl við landið né grunnatvinnuvegi þess en þessi kynslóð býr yfir mikilli orku og þekkingu á öðrum sviðum. Það er mikilvægt að í boði sé efni sem kynnir henni hefðbundna atvinnuvegi á aðlaðandi hátt. Þess vegna gerðum við Hið blómlega bú.

Bændurnir, viðmælendur Árna í þáttunum, koma ákaflega vel fyrir og bera heilbrigðum búskaparháttum fagurt vitni. Þó við höfum bara tekið upp í Borgarfirðinum vísar þátturinn almennt í störf bænda þessa lands sem alla daga vinna að því að auka hagsæld landsmanna, með því að hafa Ísland sjálft að blómlegu búi.

www.hidblomlegabu.is
www.facebook.com/hidblomlegabu