Þáttur 8 – Fullt hús matar

Þegar hausti hallar hefst sláturtíðin. Fyrir borgarbarnið Árna í Árdal er hún framandi tími. Tvo af dilkunum sínum, eina á og grísina tvo hefur hann kvatt, og nú tekur við að vinna úr afurðunum. Sláturgerð er úrvinnsla sem Árni er óvanur. Því þáði hann með þökkum boð Jóhönnu Guðjónsdóttur húsfreyju að Grund í Skorradal um að koma í læri í sláturgerð. Nú sýnir hún honum handtökin.

Þáttur 7 – Uppskeran

Árni hugar að uppskerunni í garðinum sínum, hann á von á góðum gestum og eldar fyrir þá mikla uppskerusúpu. Árni og Þuríður á Þorgautsstöðum koma og taka út garðinn og snæða svo súpuna með Árna. Þrátt fyrir vandræðaganginn um vorið er Árni ekki tilbúinn að gefast upp á sauðamjöltum. Hann fær Þóru Kópsdóttur sér til aðstoðar og þau ræða um sauðamjólk og ýmislegt sem lýtur að sauðanytjum.

Þáttur 6 – Haustar að á heiðum

Haustið er mikill annatími fyrir bændur. Fé Flókdæla, Reykdæla og Hálssveitunga er á Arnarvatnsheiði yfir sumarið, á haustin fara bændur í leitir á heiðinni og eru þar nokkra daga í senn. Árni fer og hittir gangnamenn í Álftakróki. Hann bakar bláberjaköku við nokkuð framandi aðstæður og hjálpar Kötu matselju að laga kjötsúpuna. Heiðarleiðangurinn endar í Fljótstungurétt, þar sem Árni lærir að draga í dilka.

Þáttur 5 – Villta Vestrið

Hinn athafnasami Árni hefur haft í nógu að snúast, og sumarið líður hratt. Komið er að seinni slætti og Pétur hirðir heyið fyrir hestana sína,  Árni drífur í að tína túnsúru til pestógerðar, áður en Árdalstúnið er slegið.

Árni veltir fyrir sér hvort ekki megi nota kornið góða frá Magnúsi í Ásgarði í fleira en brauðbakstur. Hann heimsækir næsta bæ við Ásgarð, Steðja, en þar rekur Dagbjartur Arilíusson brugghús ásamt konu sinni Svanhildi Valdimarsdóttur. Dagbjartur og bruggmeistarinn Philipp Ewers kynna Árna leyndardóma ölgerðarinnar og hann einsetur sér að reyna að gera bjór úr borgfirsku korni.

Náttúran heillar í síðsumarþeynum og Árni hefur heppnina með sér er hann finnur skógarreit fullan af ætisveppum. Hann fyllir körfuna sína af fallegum og verðmætum kóngssveppum. Heima í eldhúsi gerir hann sér góðan verð úr sveppunum og fenniku úr garðinum sínum. Afganginn af sveppunum þurrkar hann til geymslu.

Árni veltir fyrir sér hvað má nýta fleira úr náttúrunni og fær Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur, prófessor á Hvanneyri til að fræða sig um plöntur og notagildi þeirra. Hvönnin, mjaðurtin og njólinn eru nytjaplöntur sem gott er að þekkja en Árni sér sér leik á borði með vallhumalinn sem vex svo vel í gerðinu hans.

Byggið er orðið að malti og vallhumallinn kominn í te, Árni fær Philipp til að koma í Árdal og hjálpa sér við fyrstu áfangana í bjórgerðinni. Þeir félagarnir snæða fyllta bleikju sem Árni ber fram með ofnsteiktum kartöflum, salati úr Árnagarði og dásemdar túnsúrupestói.

 … Nánar

Þáttur 4 – Mannamót

Yfir hásumarið er nóg að gera í sveitinni. Milli verka lyfta menn sér upp og fara á mannamót. Árna finnst hann vart gjaldgengur bóndi taki hann ekki þátt í sumarhátíð Kaupfélags Borgfirðinga. Vaskur tekur hann þátt í bændaþríþrautinni með liði uppsveitunga en þrátt fyrir góða tilburði og kapp, ganga leikar ekki eins og hann hafði óskað. Eftir átökin fer hann heim í Árdal og grillar sér pitsu í matjurtargarðinum og hvílir lúin bein.

Þáttur 3 – Gnægtarlandið

Árdalsærnar fara á fjall með fénu af Hesti, Árni tekur þátt í rekstrinum með Hestsmönnum. Árni fer að Rauðsgili í Hálsasveit, heimsækir hunangsbændurna Snorra, Heklu og Hraundísi og kynnist býflugnarækt, þar fær hann dásamlegt hunang sem iðnar býflugurnar hafa safnað úr lyngi og blómum fjallsins. Kýrin Ljómalind kemur í Árdal ásamt tveimur kálfum. Logi Sigurðsson og Sindri Gíslason spjalla við hann um kýr og kenna honum að mjólka. Árni býr til ricottaost úr ferskri mjólkinni.

Þáttur 2 – Blómi í eggi

Árni fer að Hesti í Andakíl þar sem hann fylgist með sauðburði og velur sér á fyrir búið sitt litla. Þar hittir hann Þorkel Þórðarson sem segir honum sitthvað um sauðfé. Hann fer því næst til mjólkurbændanna Ólafar Guðmundsdóttur og Þorvalds Jónssonar í Brekkukoti í Reykholtsdal og kynnir sér kúabúskap. Þegar hann kemur heim í Árdal vindur hann sér í að gera smjör úr ferkskrum rjóma.

Þáttur 1 – Nýr í sveitinni

Árni kemur sér fyrir í Árdal, hann er nýfluttur frá Manhattan og á stóra drauma um lífið í sveitinni. Pétur Jónsson sem leigir Árna Árdal, hjálpar honum að plægja fyrir nýjum matjurtagarði. Þá fer Árni upp í Hálsasveit að hitta Jósefinu Morell bónda sem gefur honum skít í garðinn sinn sem þeir Pétur pæla svo í reitinn.