Frönsk eplakaka
Það jafnast fátt á við nýbakaða eplaköku með þeyttum rjóma eða vanilluís. Venjulega er bökudeig, eða mördeig eins það er einnig kallað, notað í hina dæmigerðu frönsku eplaköku en hér nota ég heimagert smjördeig. Það geymist vel í frysti og ef maður á það til útflatt þá er auðvelt mál að skella í eina köku með stuttum fyrirvara.
Í eina köku
Innihald
50 grömm smjör
½ vanillubaun
2 matskeiðar hrásykur
6 epli
1 matskeið smjör
1 smjördeigsbotn, um 25 sentímetrar í þvermál
100 grömm apríkósumarmelaði (fyrir apríkósugljáa)
1 matskeið vatn
Leiðbeiningar
- Forhitið ofn í 220°C. Bræðið smjörið í lítilli pönnu við miðlungshita. Hringsnúið pönnunni af og til og strjúkið botninn með sleikju. Hitið smjörið þar til mjólkurþurrefnin í smjörinu eru orðin brún og smjörið ilmar eins og heslihnetur, það tekur um 3 mínútur. Hellið smjörinu í litla hitaþolna skál og verið viss um að ná öllum mjólkurþurrefnunum úr pönnunni með sleikju. Helmingið hálfu vanillubaunina langsum, skafið fræin úr henni og setjið út í smjörið ásamt bauninni. Látið smjörið standa í um 10 mínútur til að það kólni og dragi í sig bragð vanillunnar.
- Flysjið, kjarnhreinsið og skerið 2 epli í grófa bita. Setjið þau í litla pönnu ásamt matskeið af smjöri og eldið í 10 mínútur undir loki yfir miðlungshita. Hrærið í þeim af og til. Takið lokið af, merjið eplin með gaffli og eldið þau þar til maukið er orðið tiltölulega þurrt, um 5 mínútur. Setjið maukið í skál til að kólna.
- Setjið smjörpappírsörk á ofnplötu, penslið vanillusmjörinu í um 25 sentímetra hring og stráið 1 matskeið af hrásykri yfir. Leggið smjördeigsbotninn ofan á og penslið með meira smjöri. Smyrjið eplamaukinu yfir allan botninn en skiljið eftir 1-2 sentímetra auðan jaðar til að maukið þyngi hann ekki og hann lyftist betur.
- Skerið restina af eplunum í helminga, kjarnhreinsið og skerið í 3 millimetra þykkar sneiðar. Raðið eplasneiðunum ofan á maukið þannig að þau skarist. Byrjið á stærstu sneiðunum og raðið yst í hringinn og vinnið ykkur inn að miðju með sífellt minni sneiðum.
- Penslið kökuna með vanillusmjörinu og stráið 1 matskeið af hrásykri yfir hana alla. Bakið hana í 10 mínútur við 220°C, lækkið hitann niður í 180°C og bakið 20 mínútur lengur.
- Undirbúið apríkósugljáann á meðan kakan er í ofninum. Setjið apríkósumarmelaði og vatn í pott og hitið yfir miðlungshita. Síið marmelaðið þegar það er orðið mjög fljótandi og haldið heitu. Hitið það upp aftur ef það stífnar áður en kakan er tilbúin.
- Færið kökuna yfir á kæligrind um leið og hún er tilbúin að penslið varlega með apríkósugljáanum. Eplakakan er best nýbökuð með þeyttum rjóma eða vanilluís.