Geitaostur

geitaostur

Chévre, einn þekktasti geitaostur í heimi, er í rauninni rjómaostur gerður úr geitamjólk. Vinnsluferlið er alveg eins og mjög auðvelt að laga hann. Ostakúltur var hægt að fá hjá Ostagerd.is en nú hefur þeim vef verið lokað, því þarf eflaust að leita út fyrir landsteinanna eftir kúltúr. New England Cheesemaking er góður byrjunarreitur.

Í um 500 grömm af osti

Innihald

5 lítrar geitamjólk, við herbergishita (um 23°C)
½ teskeið miðlungshitakær (e. mesophilic) ostakúltur
2 dropar ostahleypir, hrærðir út í 50 millilítra af herbergisheitu vatni
½ teskeið salt

Leiðbeiningar

  1. Hitið mjólkina hægt og rólega í potti sem settur er ofan í vask af heitu vatni. Sáldrið ostakúltúrnum yfir mjólkina þegar hún hefur náð 23°C og leyfið honum að fljóta ofan á mjólkinni í 5 mínútur. Bætið við útþynnta ostahleypinum og hrærið öllu vel saman, ekki eingöngu í hringi heldur einnig upp og niður svo kúltúrinn og ostahleypirinn dreifist jafnt um mjólkina.
  2. Leyfið blöndunni að standa við herbergishita (um 23°C) í hálfan sólarhring. Þá ætti áferðin á ostinum að vera eins og af þykkri jógúrt. Færið ostinn þá yfir í sótthreinsaðan grisjuklút og hengið upp á svölum stað. Látið drjúpa af honum þar til hann er orðinn eins þykkur og þið kjósið. Saltið þá ostinn.
  3. Ef osturinn látinn hanga í um 6 tíma þá er hann mjúkur og best að setja hann í fallegt ílát en ef hann hefur fengið að hanga nær 12 tímum þá er hægt að móta hann til dæmis í sívalning með því að rúlla honum upp í plastfilmu . Osturinn geymist í um eina vikur í kæliskáp.