Gubbröra

Fyrir utan kannski hrökkbrauð og surströmming þá er gubbröra eflaust einn þekktasti réttur Svía. Það er hefðbundið að laga hann úr harðsoðnum eggjum, eggjarauðum, tannsíld, graslauk og dilli en algengt er að fólk leiki sér með innihaldsefnin eins og ég geri hér. Gubbröra var fyrsti rétturinn sem Rikard Andersson á Scandinavian Embassy í Amsterdam kynnti fyrir mér er ég vann þar og sækir þessi uppskrift innblástur sinn þangað.

Fyrir 6 í forrétt

Innihald

6 harðsoðin egg, skorin í litla bita
6 litlar soðnar kartöflur, skornar í litla teninga
½ gúrka, kjarnhreinsuð og skorin í litla teninga
2 flök marineruð síld, skorin í litla teninga
50 grömm reyktur lax, skorinn í litla bita
1 lítill rauðlaukur, fínsaxaður
2 matskeiðar Kalles kavíar
1 lúka graslaukur, fínsaxaður
1 lúka dill, fínsaxað
1 lúka steinselja, fínsöxuð
200 grömm þykk jógúrt

Leiðbeiningar

Blandið öllum innihaldsefnunum vel saman í stórri skál. Mér finnst óþarfi krydda salatið frekar þar sem síldin, laxinn og kavíarinn eru öll frekar sölt en hægt að bæta við smá salti og hvítum pipar ef vill. Berið salatið fram með hrökkbrauði eða grófu rúgbrauði. Geymist í kæli í allt að þrjá daga.