Heilhafragrautur

Einn minn uppáhalds morgunmatur er hafragrautur. Hann er fljótgerður, saðsamur og svo er hægt að laga hann alveg eftir sínu höfði. Grauturinn er í rauninni eins og auður strigi og hægt að bera hann fram með nær hverju sem er. Það er hægt að henda lúku af bláberjum í grautinn við lok suðunnar, bæta við hnetum og fræjum, rifnum kókos, kakónibbum og ferskum eða elduðum ávöxtum og berjum. Bara svo fáein dæmi séu nefnd.

Hægt er að kaupa ýmsar tegundir af höfrum og eru algengust tegundirnar:

Heilir hafrar eða hafragrjón (e. oat groats)  eru, eins og nafnið gefur til kynna, heilir. Hismið hefur verið fjarlægt og yfirleitt eru þeir raka- og hitameðhöndlaðir til að óvirkja ensími í klíðinu sem gerir olíu þeirra þráa. Ég hef tekið eftir því að mikill munur getur verið á eldunartíma heilla hafra, allt frá 45 mínútum upp í tvo tíma. Ég veit ekki hvort það er vegna mismunandi stærða þeirra eða hvort orsakavaldurinn felist í ólíkum vinnsluaðferðum framleiðenda, nema hvort tveggja sé. Grautur úr heilum höfrum verður mjög rjómakenndur við hina löngu suðu en heilu grjónin gefa honum ótrúlega áhugaverða áferð.

Skornir hafrar (e. steel-cut oats) eru einfaldlega heilir hafrar sem skornir hafa verið með hníf í smærri bita. Það tekur 20-30 mínútur að elda graut úr skornum höfrum.

Tröllahafrar (e. rolled oats) eru gufusoðnir heilir hafrar sem flattir er út á milli stórra stálvalsa og léttristaðir. Það tekur um 10-15 mínútur að elda graut úr tröllahöfrum..

Haframjöl (e. quick oats) eru gufusoðnir skornir hafrar sem eru valsaðir mjög þunnt og léttristaðir. Það tekur um 5 mínútur að elda graut úr haframjöli.

Skyndihaframjöl (e. instant oats) er forsoðið haframjöl sem síðan er þurrkað. Það tekur innan við mínútu að elda graut úr skyndihaframjöli.

Þegar gerður er grautur úr heilum höfrum er gott að leggja þá í bleyti yfir nótt til að stytta eldunartímann. Ef leggja á hafrana í bleyti í meira en sólarhring þá mæli ég með að gera það inni í kæliskáp. Við stofuhita gætu þeir byrjað að gerjast og þá kemur súr keimur af grautnum sem sumum gæti þótt ólystugt. Einnig er hægt að leggja hafrana í bleyti í sjóðandi vatn og tekur þá enn skemmri tíma að elda graut úr þeim daginn eftir. Ég kýs hins vegar nota kalt vatn því mér þykir gott að taka frá hluta hafranna eftir tiltölulega skamma suðu til að eiga inni í ísskáp til að bæta út í salöt eða súpur. Þar sem heilir hafrar þurfa langan suðutíma þá þykir mér enginn tilgangur að gera graut úr þeim nema gera vænan skammt í einu sem dugar í nokkra daga.

Sumir taka hafragrautinn aðeins alvarlegra en aðrir. Í bænum Carrbridge í Skotlandi er árlega haldin heimsmeistarakeppnin í hafragrautsgerð þar sem keppt er um hinn gullna hræri (e. spurtle). Ég held að ég verði að skella mér við tækifæri!

http://www.goldenspurtle.com/

Um tíu vænir skammtar

Innihald

Grautur
500 grömm heilir hafrar
1,5 lítrar vatn (meira ef þarf)
1 teskeið salt

Léttsoðinn  rabarbari  fyrir fjóra
10 litlir rabarbarastilkar, skornir í 5 sentímetra búta
4 heilar kardimommur, marðar
4 matskeiðar bragðmikið hunang
150 millilítrar vatn

Léttþeyttur rjómi

Leiðbeiningar

  1. Grautur: Leggið hafrana í bleyti í stórum þykkbotna potti að minnsta kosti yfir nótt. Náið upp suðunni á höfrunum, lækkið hitann strax niður í lægsta mögulega hita og látið grautinn malla í 45 mínútur og upp í 2 klukkutíma. Hrærið reglulega í honum og skrapið botninn til að koma í veg fyrir að hann brenni við. Saltið grautinn og berið fram með léttsoðnum rabarbara og þeyttum rjóma. Grauturinn geymist vel í kæliskáp í allt að viku.
  2. Rabarbari: Setjið öll innihaldsefnin á miðlungsstóra pönnu og náið upp suðunni við háan hita. Sjóðið rabarbarann í stutta stund þar til hann er meyr í gegn er ekki byrjaður að detta í sundur en það fer allt eftir þykkt rabarbarans.