Hvannalamb í leirhjúp

lambalaeri

Þetta er lambalæri að hætti Höllu Sigríðar Steinólfsdóttur í Ytri-Fagradal og Sigríðar Erlu Guðmundsdóttur í Leir 7 í Stykkishólmi. Halla er með lífrænt sauðfjárbú og elur lömbin sín á hvönn en hún skaffar einnig og vinnur leir fyrir Siggu. Þetta lambalæri er oft borið fram þegar leirlistafólk kemur saman á nágrannabænum Nýp til að nýta leirbrennsluofninn sem þar er.

Innihald

2-3 vænar lúkur birkilauf, þvegin og söxuð smátt
1 matskeið sjávarsalt
100 millilítrar jómfrúarolía, meira ef þarf
1 væn lúka blóðberg, blómin og laufin tekin af stilkunum
1 teskeið nýmalaður svartur pipar
1 lambalæri frá Höllu í Ytri-Fagradal
Íslenskur leir, flattur út stóran ferhyrning

Leiðbeiningar

  1. Forhitið ofn í 180°C.
  2. Saxið birkilauf smátt og maukið í skömmtum í mortéli. Bætið við salti jafnt og þétt auk jómfrúarolíu. Þegar komið er ágætis mauk er blóðbergi og pipar bætt við. Maukinu er þá makað jafnt yfir allt lærið.
  3. Pakkið lærinu þétt í bökunarpappír og setjið það síðan í leirhjúp. Hér er hægt að láta gamminn geisa og skreyta leirhjúpinn að vild, föndra ýmsar fígúrur eða búa til munstur með því að þrýsta laufblöðum í leirinn. Í stað leirsins þá er hægt að ofnsteikja lærið í lokuðu fati eða romertopf.
  4. Leirhjúpað lærið er að lokum sett inn í ofninn í rúma 2 tíma eða þar til það er moðsoðið og leirinn orðinn stökkur.