Háafell í Hvítársíðu

Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur og geitabóndi býr ásamt Þorbirni Oddssyni bónda sínum á Háafelli í Hvítársíðu. Jóhanna hefur síðustu 14 ár unnið að markvissri ræktun og varðveislu íslenska geitastofnsins og einnig unnið að markaðssetningu á þeim afbragðs afurðum sem geiturnar gefa.

Íslenski geitastofninn er hreinasti gamli geitastofn í Evrópu enda hefur hann verið einangraður hér síðan á landnámsöld. Geiturnar eru skemmtilegar, fjörugar og vinalegar, stundum svolítið pöróttar og uppátækjasamar. Þær gefa af sér mjög holla og auðmeltanlega mjólk, bragðgott, fitulítið og próteinríkt kjöt; mjúk og falleg skinn, frábæra ull og einnig er innanmörinn (tólgin) afar græðandi og mýkjandi. Á Háafelli er tólgin notuð í sápur og krem.

Árið 2012 var Geitfjársetur Íslands opnað á Háafelli og þar er tekið á móti gestum allt árið eftir samkomulagi en fastur opnunartími er frá 1. júní til 31. ágúst frá kl. 13.00 – 18.00.

Þar getur fólk komið og kynnst þessum skemmtilegu dýrum, smakkað afurðir og jafnvel tekið geit í fóstur til að hjálpa við að vernda og viðhalda þessum eina dýrastofni Íslands sem er í bráðri útrýmingarhættu.

Að auki er á Háafelli fallegur rósagarður með um 180 rósategundum og öðrum fögrum gróðri. Einnig er á staðnum lítil Beint frá býli-verslun með geitaafurðum og handverki.

www.geitur.is

Geitfjársetrið á Facebook