Miðaldakjúklingur í spotta

Þegar flestir hugsa um íslenska matargerð á öldum áður þá kemur eflaust upp í hugann frekar fábreyttur matur, kannski eitthvað í líkingu við þorramatinn, sem er nú svosem alveg skiljanlegt. Á seinni hluta síðustu þúsaldar var langvarandi kuldaskeið, kallað Litla ísöldin, þá hafa  aðstæður til ræktunar verið erfiðar og fólk reitt sig í miklu mæli á húsdýrin, þá sérstaklega sauðkindina.

Annað var uppi á teningnum þegar Ísland var numið en þá var hitaskeið í norðanverðri Evrópu og landnámsmenn verslunarmenn  hafa komið með ýmsan varning með sér hvaðanæva úr Evrópu og þegar komið var fram á miðaldir má gera ráð fyrir því að höfðingjar landsins hafi haft aðgang að ýmsu aðfluttu hráefni sem kemur á óvart. Þar má nefna framandi krydd alla leið frá Litlu Asíu og ólífuolíu eða „viðsmjör“ eins og það var kallað.

Það þarf að vera gott skjól til að kjúklingurinn nái að eldast með þessum hætti. Á miðaldahátíðinni í Reykholti var tiltölulega kalt og dálítill blástur. Því var erfitt að ná jöfnu hitastigi og það tók mun lengur en ég gerði ráð fyrir. Þar sem það var tiltölulega kalt þá færði ég fuglana nær eldinum heldur þá 30 sentímetra sem mælt er með. Það gerði það að verkum bandið slitnaði hjá einum fuglinum. Við löguðum það með því að binda fuglana með garðvír en þá snerust fuglarnir ekki. Það hefði eflaust verið nóg að bleyta upp í bandinu eða mögulega bera á þá olíu til að halda þeim rökum. Aðallausnin er hins vegar að elda kjúklinga á þennan hátt í góðu skjóli og ekki of köldu veðri. Einnig er mikilvægt er hafa hæðina á bálinu nógu háa til að hitinn komi ekki bara neðan frá.

Fyrir 4

Innihald

Kryddmauk
1 teskeið saffran
2 teskeiðar salt
¼ teskeið svört piparkorn
1 hvítlauksgeiri
2 matskeiðar olífuolía

Kjúklingur
1 kjúklingur, tæplega tvö kíló
½ hvítlaukur
1 lúka fersk salvía
Bómullarband, til að binda kjúklinginn

Höfðingjasósa
5 grömm malaður negull
5 grömm malaðar kardimommur
5 grömm malað múskat
5 grömm malaður svartur pipar
25 grömm malaður kanill
100 grömm brauðmylsna
100 millilítrar rauðvínsedik

Leiðbeiningar

  1. Kryddmauk og kjúklingur: Steyti hvítlauk, salt, pipar og saffran í mortéli og bæti við  ólífuolíu svo úr verður ilmandi mauk. Kryddið kjúklingin að innan með salti og pipar og fyllið hann með með lúku af feskri salvíu og hálfum hvítlauk. Bindið hann upp eftir leiðbeiningunum í myndbandinu hér að neðan. Makið þá kryddolíunni á kjúklingin með höndunum og nuddið henni vel í alla króka og kima. Bindið fæturna á honum tryggilega saman og makið smá af kryddblöndunni á snærið til að væta það. Hengið kjúklinginn á slá þannig að þeir dangli í sömu hæð og eldurinn en um 30 sentimetra frá honum. Þar sem hitinn kemur bara úr einni átt snúið þá upp á bandið og þá þarf ekki að hafa áhyggjur af fuglinum í dálítinn tíma því hann snýst sjálfkrafa fyrir framan eldinn.
  2. Höfðingjasósa: Steytið allt kryddið í stóru mortéli, bætið við brauðmylsnu og vætið upp í með rauðvínsedikinu. Sósan er mjög bragðmikil og þarf eingöngu lítið af henni með kjúklingnum.