Rabarbarasulta

rabarbarasulta

Hin hefðbundna íslenska rabarbarasulta en mjög dökk á lit sem er vegna þess að sykurinn karamellast og svo er hún alveg dísæt þannig að hún minnir lítið á rabarbarann sjálfan, sem er mjög súr. Venjulega eru hlutföllin ein og mótin einum, eða jafnmikið af rabarbara og sykri, en mér finnst það of sætt. Ég er hrifnari af sultu sem fangar fallega rauða lit rabarbarans og viðheldur vott af góðu súru bragðinu.

Ég prófaði ótal hlutföll af rabarbara og sykri og mismunandi hitastig og eldunartíma. Það var aðallega tvennt sem ég tók eftir í þessum tilraunum mínum. Í fyrsta lagi það að rabarbarabragðið dofnar eftir því sem sultan er soðin lengur. Því er best að gera sultuna í smáum skömmtum og ekki hafa of þykkt lag af rabarbara í pottinum í einu, helst ekki meira en 5 sentímetra. Í öðru lagi þá tók ég eftir því að það er hreinna og betra rabarbarabragð af sultum þar sem rabarbarinn var flysjaður. Þær sultur eru hins vegar gulgrænar að lit því allur rauði liturinn er í ysta lagi rabarbarans. Ég tel rauða litinn hins vegar vera mikilvægan part af sultunni og því ákvað ég að flysja ekki.

Í þrjár 450 millilítra krukkur

Innihald

1 kíló rabarbarastilkar, skolaðir og skornir í tveggja sentímetra bita
500 grömm sykur
50 grömm hvannastilkar (valfrjálst)

Leiðbeiningar

  1. Þrífið krukkur með heitu sápuvatni og skolið vel. Sótthreinsið krukkurnar (og lokin), annað hvort með því að sjóða þær í 10 mínútur eða baka inn í ofni í 20 mínútur við 120°C. Haldið þeim heitum þar til þær verða fylltar.
  2. Hrærið saman rabarbara og sykri potti sem er 27 sentímetrar í þvermál. Ekki setja meira en um 5 sentímetra lag af rabarbara í pottinn. Náið upp suðunni við miðlungsháan hita og hrærið stöðugt í. Þegar allur sykurinn er bráðinn lækkið þá í miðlungslágan hita og látið sultuna malla í um 30 mínútur.  Ef hvannastilkar eru notaðir þá eru þeir settir heilir út í þegar suðan er komin upp og fjarlægðir að suðu lokinni. Hrærið oft í sultunni og fullvissið ykkur um að hún sé ekki að brúnast.
  3. Hægt er að athuga stífleika sultunnar á tvennan hátt. Annars vegar með því að setja teskeið af sultunni á kaldan disk, setja hann inn í frysti og sjá hversu stíf hún verður þegar hún kólnar. Verið viss um að taka pottinn af hellunni á meðan! Hins vegar er hægt mæla hitastigið á henni en við um 105°C ætti sultan að vera orðin mátulega stíf.
  4. Hellið sultunni í heitar sótthreinsaðar krukkurnar og setjið lok á þær. Þannig geymast þær í nokkra mánuði í kæliskáp. Einnig er hægt að sjóða fylltar krukkurnar í stórum potti í um 5 mínútur og þá geymast þær við stofuhita í allt að ár.