Rauðsgil

Að Rauðsgili í Hálsasveit býr Hraundís Guðmundsdóttir ásamt bónda sínum Birni Oddssyni og börnum þeirra, Snorra og Heklu.
Snorri fékk sem unglingur áhuga á býflugum og ákvað að verða býflugnabóndi. Móðir hans studdi hann í ásetningi sínum og aðstoðaði til að koma upp búi heima á Rauðsgili.
Litla systirin Hekla var nú ekkert sérlega áfjáð í að fá þessa nýju íbúa í nágrennið, en eftir að hún kynntist býflugnabúskapnum heillaðist hún fljótt og var dugleg að fara með að kanna búin og sækja hunangið. Fljótlega fékk hún egin býflugnabúning og sinnir búskapnum af kappi. Þó flugurnar séu spakar og hafi engan áhuga á mannfólkinu þegar þær sækja sér nektar, geta þær kvekkst þegar átt er við búin.
Rauðsgil er með lífræna vottun, og hefur Hraundís síðan 2004 ræktað vallhumal sem er gömul lækningarurt. Vallhumalinn selur hún til fólks og fyrirtækja sem nýtir hann í græðikrem og snytivörur. Einnig eru nýttar í snyrtivörur tegundir viltra jurta sem á Rauðsgili vaxa. Hraundís er heilsunuddari, þekkir jurtirnar vel og nýtir í nuddolíur.
Rauðsgilsmenn eru einnig skógarbændur, en það fara 86 hektarar af landinu undir skóg. Býflugurnar á Rauðsgili eiga því ýmsa kosti í að afla nektars til að búa til hið dásamlega hunang, enda dafna þær vel. Bragðið af hunanginu er breytilegt eftir því í hvaða flóru þær sækja og sérlega skemmtilegt að gera samanburð á mismunandi uppskerum.