Spænsk eggjakaka

spænsk-eggjakaka

Til eru ýmsar gerðir af eggjakökum: hin klassíska franska er fölgul, vindilslaga og stundum með einfaldri fyllingu; sú bandaríska er gullinbrúnn hálfmáni með vænni fyllingu og sú ítalska er þykk, nokkuð frauðkennd og hún kláruð inn í ofni.

Sú spænska er mjög lík þeirri ítölsku nema hvað að hún er þéttari í sér og elduð allan tímann á eldavélinni. Venjulega er hún að löguð með pönnusteiktum þunnskornum kartöflum og lauk en ég nýti mér þá staðreynd að oft eru til soðnar kartöflur inn í ísskáp eftir kvöldmáltíð gærkvöldsins. Í raun er hægt að nýta hvað eina úr ísskápnum: afgangs ofnbakað grænmeti, frosnar grænar ertur eða bita af bragðgóðri pylsu – svo fátt eitt sé nefnt.

Handa 4-6 sem forréttur

Innihald

1 kíló kaldar soðnar kartöflur, skornar langsum í tvennt og svo í þykkar sneiðar
1 stór laukur, flysjaður, skorinn til helminga og sneiddur þunnt
4 matskeiðar jómfrúarolía
½ teskeið salt
¼ teskeið nýmalaður pipar
5 stór egg

Leiðbeiningar

  1. Hitið 2 matskeiðar af jómfrúarolíu við miðlungshita, á pönnu sem er 25 sentímetrar í þvermál og með nokkuð háum kanti. Best er að nota viðloðunarfría pönnu eða góða steypujárnspönnu. Blandið saman kartöflum, lauk, ólífuolíu, helmingnum af saltinu og öllum piparnum í stórri skál. Hellið kartöflublöndunni á heita pönnuna og eldið hana undir loki þar til laukurinn er mjúkur í gegn, 10-15 mínútur. Hrærið reglulega í blöndunni til að koma í veg fyrir að hún brenni við.
  2. Sláið eggin saman í sömu skál ásamt ¼ teskeið af salti. Blandið kartöflublöndunni vel saman við eggin. Hitið 2 matskeiðar af jómfrúarolíu í sömu pönnu á miðlungsháum hita og hellið allri blöndunni á pönnuna. Hristið hana til og hrærið í miðjunni með sleikju á sama tíma þar til barmar eggjakökunnar hafa stífnað, í um hálfa mínútu.
  3. Lækkið undir pönnunni og eldið eggjakökuna við miðlungslágan hita. Setjið lok á pönnuna og hristið hana af og til á meðan eggjakakan eldast. Eftir um 10 mínútur ætti botninn að vera gullinbrúnn og eggin að mestu leyti elduð í gegn.
  4. Verið viss um að eggjakakan sé laus í pönnunni og hvolfið henni þá á disk. Rennið henni aftur í pönnuna og eldið hana í um 5 mínútur til viðbótar eða þar til eggin eru elduð í gegn.
  5. Færið eggjakökuna yfir á skurðarbretti og leyfið henni að kólna í um 10 mínútur áður en hún er skorin í geira. Hún er fullkomin heimagerðum rjómaosti og graslauk.