Þáttur 1 – Nýr í sveitinni

Árni kemur sér fyrir í Árdal, hann er nýfluttur frá Manhattan og á stóra drauma um lífið í sveitinni. Pétur Jónsson sem leigir Árna Árdal, hjálpar honum að plægja fyrir nýjum matjurtagarði. Þá fer Árni upp í Hálsasveit að hitta Jósefinu Morell bónda sem gefur honum skít í garðinn sinn sem þeir Pétur pæla svo í reitinn.

Skyr er hollur og góður íslenskur kostur, Árni gerir hið fínasta skyr og sýnir aðferðina.

Árni kynnist geitum á Háafelli hjá henni Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur geitabónda. Eftir það fer hann að undirbúa komu vina sinna og fjölskyldu sem ætla að hjálpa honum að gera fjárheldan matjurtagarð. Hann eldar fyrir þau girnilegan karabískann geitapottrétt, og sýnir hvernig gera má góða karríblöndu.

Loks fer Árni og nær sér í plöntur í gróðrastöðinni á Þorgautsstöðum í Hvítársíðu. Þar hittir hann Árna Brynjar Bragason og Þuríði Ketilsdóttur og dóttur þeirra Ragnheiði. Hjónin leiðbeina honum um gróðursetningu og hann kaupir fallegar matjurtir.

Gestirnir góðu koma í Árdal, vinna og nærast og loks er garðurinn klár!

Árni á von á góðum gestum í kvöldverð og útbýr tortelloni með graskersfyllingu og ragú bianco, kjötsósu með mysu í stað hvítvíns. Áður en gestirnir koma potar hann niður nokkrum kryddjurtum og nýtur svo kvöldsins í huggulegheitum með Pétri Jónssyni og Svövu Sjöfn Kristjánsdóttur.