Þáttur 2 – Blómi í eggi

Árni fer að Hesti í Andakíl þar sem hann fylgist með sauðburði og velur sér á fyrir búið sitt litla. Þar hittir hann Þorkel Þórðarson sem segir honum sitthvað um sauðfé. Hann fer því næst til mjólkurbændanna Ólafar Guðmundsdóttur og Þorvalds Jónssonar í Brekkukoti í Reykholtsdal og kynnir sér kúabúskap. Þegar hann kemur heim í Árdal vindur hann sér í að gera smjör úr ferskum rjóma.

Árni undirbýr komu fyrstu dýranna sinna og innréttar hænsnakofa af kostgæfni. Hænsnin góð fær hann hjá vinkonu sinni Elsu Þorsteinsdóttur á Úlfsstöðum í Hálsasveit. Þegar fiðurféð er heimkomið hyggur Árni að girðingamálum því von er á ánni Blæju og lömbunum tveimur af Hesti. Árni vinnur í garðinum og hirðir um hænsnin sem gefa hin vænustu egg. Glaður í bragði matreiðir Árni ostafrauð úr þessum fyrstu Árdalsafurðum.

Ærnar koma loks í Árdal og Árni hugsar sér gott til glóðar því nú er vor og bestur tími til að mjólka sauðfé, og fátt veit hann betra en nýja sauðamjólk. Eftir sauðfjármjaltaævintýrið liggur leið Árna í Sólbyrgi í Reykholtsdal þar sem hann skoðar gnægt jarðarberja og tómata og annars góðgætis hjá Einari Pálssyni og Kristjönu Jónsdóttur. Eftir að heim er komið lagar hann sér sabayone sem hann nýtur með nýtíndum jarðarberjum í hlýju sumarkvöldinu.