Ullarselið á Hvanneyri

Ullarselið á Hvanneyri er vettvangur handverks og hannyrðafólks á Vesturlandi með áherslu á tóvinnu úr úrvals ull.

Sérstaða Ullarselsins er hið mikla úrval af hágæða handunnu ullarbandi, af öllum gerðum og flíkum framleiddum úr því. Lögð er mikil áhersla á gæði hráefnisins jafnt sem vinnunar. Ullin er fengin frá bændum sem leggja upp ræktun á feldfögru fé og fara vel með ullina. Ullin er svo sérvalin úr reyfinu, eftir því hvað vinna á úr henni, en hún er misjöfn að gerð á einu og sama reyfinu. Eftir þetta er hún þvegin, tægð, kembd, spunnin og tvinnuð og stundum jurtalituð, en jurtalitað band fæst í miklu litavali í Ullarselinu.

Allar vörur fara í gegn um strangt gæðamat áður en þær eru lagðar fram í verslunina þannig má ævinlega ábyrgjast að í boði er úrvals vara.

Á þessum styrka grunni hefur Ullarselið starfað í 22 ár.

Ullarselið var stofnað 1992 á Hvanneyri að tilstuðlan Búnaðarsamtaka Vesturlands, Kvenfélagasambanda á Vesturlandi og ekki síst Bændaskólans á Hvanneyri. Hugmyndin kom frá Sveini Hallgrímssyni sem þá var skólastjóri. Árið 1991 var Ullariðn gerð að valgrein við skólann og var Jóhanna E. Pálmadóttir ráðin til að byggja upp þá valgrein og í framhaldi af því stofna Ullarselið og vera í forsvari fyrir það.

Félagar í Ullarselinu eru um 30 og eru af öllu Vesturlandi. Þeir eru flestir innleggjendur en leggja mismikið inn, virkir félagar sem standa vaktina í versluninni eru um 10. Starfsemin hófst á lofti Búvélasafnsins en flutti fljótlega í það húsnæði sem hýsir það enn í dag. Stefnt er á að flytja Ullarselið í gamla fjósið á Hvanneyri með haustið 2013.