Þáttur 5 – Villta Vestrið

Hinn athafnasami Árni hefur haft í nógu að snúast, og sumarið líður hratt. Komið er að seinni slætti og Pétur hirðir heyið fyrir hestana sína,  Árni drífur í að tína túnsúru til pestógerðar, áður en Árdalstúnið er slegið.

Árni veltir fyrir sér hvort ekki megi nota kornið góða frá Magnúsi í Ásgarði í fleira en brauðbakstur. Hann heimsækir næsta bæ við Ásgarð, Steðja, en þar rekur Dagbjartur Arilíusson brugghús ásamt konu sinni Svanhildi Valdimarsdóttur. Dagbjartur og bruggmeistarinn Philipp Ewers kynna Árna leyndardóma ölgerðarinnar og hann einsetur sér að reyna að gera bjór úr borgfirsku korni.

Náttúran heillar í síðsumarþeynum og Árni hefur heppnina með sér er hann finnur skógarreit fullan af ætisveppum. Hann fyllir körfuna sína af fallegum og verðmætum kóngssveppum. Heima í eldhúsi gerir hann sér góðan verð úr sveppunum og fenniku úr garðinum sínum. Afganginn af sveppunum þurrkar hann til geymslu.

Árni veltir fyrir sér hvað má nýta fleira úr náttúrunni og fær Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur, prófessor á Hvanneyri til að fræða sig um plöntur og notagildi þeirra. Hvönnin, mjaðurtin og njólinn eru nytjaplöntur sem gott er að þekkja en Árni sér sér leik á borði með vallhumalinn sem vex svo vel í gerðinu hans.

Byggið er orðið að malti og vallhumallinn kominn í te, Árni fær Philipp til að koma í Árdal og hjálpa sér við fyrstu áfangana í bjórgerðinni. Þeir félagarnir snæða fyllta bleikju sem Árni ber fram með ofnsteiktum kartöflum, salati úr Árnagarði og dásemdar túnsúrupestói.