Þáttur 8 – Fullt hús matar

Þegar hausti hallar hefst sláturtíðin. Fyrir borgarbarnið Árna í Árdal er hún framandi tími. Tvo af dilkunum sínum, eina á og grísina tvo hefur hann kvatt, og nú tekur við að vinna úr afurðunum.

Sláturgerð er úrvinnsla sem Árni er óvanur. Því þáði hann með þökkum boð Jóhönnu Guðjónsdóttur húsfreyju að Grund í Skorradal um að koma í læri í sláturgerð. Nú sýnir hún honum handtökin.

Reyfin góðu af lambinu og ánni þarf að verka og fáir eru betri í því en konurnar í Ullarselinu á Hvanneyri. Árni fer í selið til að leita sér aðstoðar og hittir þar fyrir Stínu á Lundi, Ástu Sigurðardóttur, Ingibjörgu Jónasdóttur og Bjarnheiði Jónsdóttur. Stína og Ásta hjálpa honum í tóvinnunni. Eftir nokkurt streð tekst honum að tvinna saman spunnið band úr kembdri lyppu úr reyfinu af sínum eigin kindum.

Árni er mikill áhugamaður um almennilegar pylsur. Hann og Guðmundur Rúnar Guðlaugsson kjötmeistari skella sér í pylsugerð og verður mikið úr verki. Þeir gera tvær gerðir af grillpylsum og eina af hrápylsu eða mörbjúga. Að lokum hefja þeir svo tilraun á verkun hráskinku og nota sömu aðferð við ærlæri.

Eftir því sem líða tekur á veturinn verður æ hvassviðrasamara í Árdal. Garðurinn fær að kenna á því, og einn kaldan vetrardag er grindverkið fallið. Árni fárast nú ekki neitt um það  en hlakkar til vorsins og þess nýju verkefna.

Farið að líða að jólum og Árni hefur fengið inni fyrir sauðalærin sín í forláta reykkofa hjá nágranna sínum Jómundi Hjörleifssyni á Heggsstöðum. Hann fer þangað, hittir Jómund og vitjar læranna, fræðist um reykingu og fær að hengja upp nokkrar pylsur.

Loksins hefur Árna tekist að mjólka ærnar sínar almennilega, nú hafði hann safnað og fengið næga mjólk í sauðamjólkurskyrgerð. Hann nýtir sitt kostaskyr til að gera parfait með  hrærðum bláberjum og heimagerðu granóla. Að lokum lítur hann yfir farinn veg og veltir fyrir sér framtíðaráformum sínum.