Ábrystir með marineruðum jarðarberjum

abrystir

Broddmjólk (eða broddur) kallast mjólk spendýra fyrstu daga eftir burð. Hún er einstaklega próteinrík og við hitun hleypur hún og kallast þá ábrystir. Ábrystir þekkjast ekki eingöngu á Íslandi en í  Færeyjum kallast þær ketilostur, í Svíþjóð kalvdans (ísl. kálfadans), í Finnlandi Uunijuusto (ísl. ofnostur) og víða annars staðar er eldað úr broddmjólk.

Venjulega eru ábrystir gerðar í potti yfir vatnsbaði en í þessari uppskrift baka ég þær í ofni við vægan hita sem gerir það að verkum að ábrystirnar verða mun mýkri en ella. Sumir eru hrifnari af stífari ábrystum en mér finnst þær æðislegar svona lungamjúkar.

Fyrir 4-6

Innihald

Ábrystir
1 lítri broddmjólk
1 teskeið fínmalaðar kardimommur
50 grömm hunang

Marineruð jarðarber
500 grömm jarðarber,
1 matskeið hunang
1 matskeið balsamedik
Handfylli af myntulaufum

Leiðbeiningar

  1. Forhitið ofn í 100°C. Blandið saman broddmjólk, kardimommum og hunangi í lítill skál. Hellið blöndunni í lítið eldfast mót þannig að hún nái um 5 sentímetra upp hliðar mótsins. Leggið álpappír þétt yfir og bakið þar til ábrystirnar eru orðnar hæfilega stífar, 1-2 tíma, en það fer allt eftir próteininnihaldi broddmjólkurinnar.
  2. Gerið jarðarberin klár um 3o mínútum áður en ábrystirnar eru tilbúnar. Veltið jarðarberjunum upp úr hunangi og balsamediki og látið standa við stofuhita. Ekki marinera berin of lengi því annars verða þau of lin.
  3. Skiptið jarðarberjunum og safanum sem myndast hefur á milli fjögurra til sex skála. Setjið væna skeið af ábrystum ofan á jarðarberin í hverri skál og skreytið svo með myntulaufum.