Betu- og gulrótasalat

Ég hef átt í stökustu vandræðum með hvað skuli kalla „rauðrófur“ sem ekki eru rauðar en til eru meðal annars gul, hvít, fjólublá og röndótt afbrigði. Það er til dæmis ekki hægt að kalla gula „rauðrófu“ gulrófu því það er allt annað grænmeti auk þess sem þær eru ekkert skyldar rauðrófum, sem er mjög ruglingslegt. Rauðrófa er einnig kölluð rauðbeða en orðið beða líkist um of orðinu beðja,  sem er heiti á jurt náskyldri rauðrófunni en er ræktuð fyrir næringarrík blöðin og litríka stilkana. Á latínu kallast rauðrófa Beta vulgaris og var stungið upp á því við mig að kalla þær betur, sem mér finnst mjög fallegt. Þá myndu þær nefnast rauðbetur, gullinbetur (e. golden beets) og randabetur (e. chioggia eða candy cane beets). Ekki hef ég ræktað önnur afbrigði en þessi en það væri gaman að rækta betur í öllum regnbogans litum.

Rauðbetur eru mjög litsterkar og mæli ég ekki með því að nota þær í þetta salat, gulling- og randabetur halda litnum sínum betur. Þar sem salatið eru hrátt þá er nauðsynlegt að skera beturnar örþunnt á mandólíni (og á ég þá ekki við um hljóðfærið) eða rífa á rifjárni en skornar með hnífi verða þær of þykkar og stökkar undir tönn.

Fyrir 4

Innihald

4 gulrætur í mismunandi litum, skrúbbaðar undir köldu vatni og skornar örþunnt á mandólíni
1 gullinbeta, skrúbbuð undir köldu vatni og skorin örþunnt á mandólíni
1 randabeta,  skrúbbuð undir köldu vatni og skorin örþunnt á mandólíni
100 grömm bragðmildur mjúkur geitaostur
Bragðmikil jómfrúarolía
Piparrót
Salt og pipar
Franskt fáfnisgras
Handfylli af rifsberjum

Leiðbeiningar

Skiptið gulrótunum á milli diskanna fjögurra, mótið þær í fallega hrauka og raðið betunum um diskinn. Setjið klínur af geitaosti hér og þar um grænmetið og rífið piparrót yfir það. Súldrið jómfrúarolíunni yfir og kryddið með salti og pipar. Skreytið með frönsku fáfnisgrasi og rifsberjum.