Bláberjakaka

Fyrir 8-10

blaberjakakaÞað er alltaf jafn gaman að fara í berjamó og þó að fjórðungur berjanna fari kannski upp í mann þá reynir maður að koma heim klyfjaður berjum. Það er vinsælt að fá sér fersk bláber með rjóma, búa til sultur eða saft og einnig er gott að frysta berin og geyma til betri tíma.

Þegar notuð eru frosin ber er ráð að nota aðeins minna af þeim. Frosin ber gefa af sér meiri safa sem getur orðið til trafala þegar snúa á kökunni við. Þessi tegund af köku kallast „upside-down cake“ á ensku, sem mætti útfæra sem hvolfkaka á íslensku, þar sem hún er bökuð á hvolfi.

Kakan er bökuð í pönnu sem er 25 sentímetrar í þvermál og 5 sentímetra djúp. Það er einnig hægt að baka hana í kökumóti sem er álíka stórt. Þá er karamellan búin til á pönnu og berjunum velt varlega upp úr henni. Þeim er síðan hellt í smurt kökumót og síðan haldið áfram með uppskriftina frá skrefi tvö.

Innihald

Kökubotn
150 grömm sykur
50 grömm púðursykur
½ teskeið salt
2 stór egg
100 grömm smjör, bráðið
150 grömm sýrður rjómi
1 teskeið vanilludropar
15o grömm hveiti
1 teskeið lyftiduft

Bláberjatoppur
50 grömm smjör
150 grömm púðursykur
800 grömm fersk bláber

Leiðbeiningar

Kökubotn
Hrærið saman sykri, púðursykri, salti og eggjunum í stórri skál þar til blandan er létt og ljós. Hellið bráðnu smjöri hægt og rólega út í og bætið því næst við sýrðum rjóma og vanilludropum. Hrærið öllu vel saman. Bætið hveiti og lyftidufti saman við og hrærið varlega í, þar til ekkert hveiti er lengur sjáanlegt.

Bláberjakaka

  1. Bræðið smjör á pönnu sem er 25 sentímetrar í þvermál, að minnsta kosti 5 sentímetra há og má fara inn í ofn. Þegar smjörið er farið að freyða er púðursykri bætt við og hrært í þar til sykurinn er bráðinn og karamella búin að myndast. Bætið bláberjum á pönnuna í jöfnu lagi en án þess að hræra mikið í þeim.

  2. Hellið deiginu yfir og dreifið því jafnt yfir öll berin. Bakið kökuna í 180°C heitum ofni í um 50 mínútur eða þar til botninn er gullinbrúnn og tannstöngull kemur hreinn út þegar stungið er í kökuna miðja.

  3. Leyfið kökunni að kólna örlítið áður en henni er snúið við á vírgrind og sett í ofnskúffu. Takið pönnuna af kökunni. Látið safann drjúpa úr og leyfið henni að kólna í 20 mínútur áður en hún er færð yfir á disk.