Blini

blini1

Blini eru pönnukökur sem tilheyra rússneskri matarhefð og eru bakaðar úr geri. Hefð er fyrir því að nota bókhveiti í þær sem er, þrátt fyrir nafnið, ekkert skylt hveiti heldur er það fræ af jurt skyldri súrum og rabbabara. Hnetulegur keimur þess fer einstaklega vel með söltu áleggi. Það er hægt að leika sér endalaust með álegg en hér eru þrjár tillögur: grafin önd, sýrður rjómi, trönuberjasinnep, örsmár bátur af smátómati og steinselja; grafinn lax, sýrður rjómi, hrogn og ferskt dill; heimareykt hangikjöt, sýrður rjómi bragðbættur með dijonsinnepi og vorlaukur.

Í um 30 blini

Innihald

60 grömm hveiti
60 grömm bókhveiti
1 matskeið þurrger
½ teskeið sykur
¼ teskeið salt
350 millilítrar volg mjólk
1 matskeið smjör
2 egg, aðskilin

Leiðbeiningar

  1. Hrærið saman hveiti, bókhveiti, þurrgeri, sykri og salti í stórri skál. Bræðið smjörið í volgri mjólkinni og hrærið síðan við þurrefnin smátt og smátt þannig að úr verði þykk soppa. Hyljið skálina með plastfilmu og leyfið soppunni að standa í 2 tíma við stofuhita eða þangað til hún hefur tvöfaldast að rúmmáli.

  2. Hrærið eggjarauðunum saman við, einni í einu. Stífþeytið eggjahvíturnar í annarri skál og byrjið á að blanda fjórðungi þeirra saman við soppuna. Blandið síðan restinni af eggjahvítunum ofur varlega saman við.

  3. Hitið stóra pönnu á miðlungshita og steikið upp úr smjöri litlar pönnukökur sem eru um 4 sentímetrar í þvermál.