Blómkálssúpa

blomkalssupa

Þessi uppskrift nýtir sér bragðflóru blómkálsins til hins ýtrasta. Bragðið af því breytist nefnilega eftir því hversu lengi og hvernig það er eldað. Eftir um 15 mínútna suðu minnir bragðið dálítið á hvítkál og ef það er soðið 15 mínútum lengur, verður bragðið sætara og dýpra. Enn önnur vídd blómkálsins kemur í ljós þegar það er steikt á pönnu eða bakað í ofni og karamellaðir bragðtónar koma til sögunnar. Það er þó ekki hægt að elda blómkálið endalaust því eftir um klukkutíma suðu er það orðið tiltölulega bragðlaust.

Í grænmeti eru tvenns konar trefjar: vatnsleysanlegar og óvatnsleysanlegar. Þær vatnsleysanlegu, eins og nafnið gefur til kynna, leysast upp í vatni og gera það að verkum að maukaðar grænmetissúpur þykkna. Þær óvatnsleysanlegu leysast ekki upp í vatni en hafa áhrif á áferð súpunnar. Rjóma er oft bætt út í súpur til að gefa þeim mýkri áferð en mjólkurfitan í honum húðar óvatnsleysanlegu trefjarnar þannig að við finnum ekki eins fyrir þeim þegar þær lenda á tungunni. Blómkál er af náttúrunnar hendi trefjalítið og er eingöngu helmingur trefjanna óvatnsleysanlegar, því þarf engan rjóma til að súpan verði flauelsmjúk.

Fyrir fjóra til sex

Innihald

1 blómkálshaus (um 1 kíló)
1 blaðlaukur, einungis hvíti og ljósgræni hlutinn, sneiddur þunnt
1 laukur, flysjaður, helmingaður og sneiddur þunnt
4 matskeiðar jómfrúarolía
Salt og pipar
1 lítri vatn
1 teskeið hvítvínsedik
Handfylli fersk kóríanderlauf, söxuð

Leiðbeiningar

  1. Fjarlægið ytri laufin af blómkálshausnum og skerið stilkinn úr. Snyrtið stilkinn til þannig að einungis meyri innri hlutinn er eftir og sneiðið hann þunnt. Takið frá væna lúku af blómkáli og skerið í 1-2 sentímetra blómvendi. Skerið restina af blómkálinu í 2 sentímetra þykkar sneiðar.
  2. Hitið 2 matskeiðar af jómfrúarolíu við miðlungslágan hita í stórum potti og bætið blaðlauknum og lauknum út í ásamt 1 teskeið af salti. Hrærið oft í pottinum og eftir 5-10 mínútur ætti laukurinn að vera orðinn mjúkur en ekki brúnaður.
  3. Skellið snyrta stilknum og helmingnum af blómkálinu í pottinn og bætið við nægu vatni til að það fljóti yfir grænmetið, rúmum einum lítra. Hækkið hitann undir pottinum, náið upp suðunni og lækkið svo strax aftur niður í miðlungslágan hita. Látið malla í um 15 mínútur. Bætið þá við restinni af blómkálinu og látið malla í 15 mínútur lengur eða þar til það er orðið meyrt. Maukið súpuna í blandara eða með töfrasprota þar til hún er orðin flauelsmjúk. Setjið maukuðu súpuna í hreinan pott, þynnið hana út með vatni og saltið eftir smekk.
  4. Hitið 2 matskeiðar af jómfrúarolíu á lítilli pönnu yfir miðlungshita og eldið blómvendina í um 5-10 mínútur eða þar til þeir eru orðnir brúnir og meyrir í gegn. Bætið hvítvínsedik á pönnuna og kryddið með salti og pipar. Setjið blómkálið í litla skál og haldið því heitu þar til súpan er borin fram. Ef súpan er gerð fyrir stóran hóp er best að velta blómkálinu upp úr olíunni, baka í 250°C ofni í tæplega 20 mínútur og velta því um í ofninum af og til svo það bakist jafnt.
  5. Setjið súpuna í heitar súpuskálar og skreytið með vænni matskeið af brúnuðu blómkáli, smá skvettu af jómfrúarolíu,  söxuðu kóríanderlaufum og einum snúningu af ferskum muldum pipar.