Brioche bollur

brioche-bollur

Venjulega þá er brioche gert á þann hátt að búið er til deig og mjúku smjöri hnoðað smátt og smátt saman við það. Deigið er yfirleitt hnoðað í hrærivél því ef það er gert í höndunum þá er miklar líkur á því hitinn frá höndunum hreinlega bræði smjörið og maður endi með stóran feitipoll á borðinu. Það er hægt að komast hjá því öllu saman með því að sleppa því að hnoða deigið og láta það gerjast í að minnsta kosti hálfan sólarhring og allt upp í tvo daga.

Á þessum tíma fara ensími í hveitinu í gang sem klippa glútenið í litla búta og einnig framleiðir gerið koltvísýring sem heldur deiginu á hreyfingu. Þetta tvennt virkar eins og örhæg hnoðun og á tæpum tveimur dögum hefur þessi virkni hnoða deigið fyrir mann.

Í 12 bollur

Innihald

500 grömm hveiti
2 teskeiðar þurrger
50 grömm sykur
1 ½ teskeið salt
6 egg
100 millilítrar mjólk, við herbergishita (meira til að pennsla bollurnar með)
200 grömm smjör, bráðið
Hvít sesamfræ

Leiðbeiningar

  1. Hrærið saman hveiti, þurrgeri, sykri og salti í stórri skál. Þeytið eggin með mjólkinni og bætið bráðnu smjöri við í mjórri bunu. Blandið blaut- og þurrefnunum saman og hrærið þar til ekkert hveiti er eftir í skálinni. Leggið plastfilmu yfir skálina og setjið í kæli í að minnsta kosti hálfan sólarhring eða í allt að tvo daga.
  2. Leggið deigið á vel hveitistráð borð og skiptið því 12 jafnstóra hluta. Fletjið hvern hluta í disk og teygið síðan jaðra deigsins inn að miðju þannig að úr verði gróf bolla. Snúið bollunni þannig að samskeytin snúi niður og leggið kúptan lófa yfir hana án þess að þrýsta of mikið niður. Hreyfið höndina í hringi þannig deigið rúlli með höndinni og mótið það í bollu.
  3. Leggið bollurnar í stóra ofnskúffu með bökunarpappír og leggið plastfilmu lauslega yfir þær. Látið þær hefast í um einn og hálfan tíma eða þar til þær hafa tvöfaldast að stærð.
  4. Forhitið ofn í 180°C. Penslið bollurnar með mjólk og stráði sesamfræjum yfir hverja og eina þannig að fræin nái alveg niður hliðar bollanna. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar og kjarnhitastig þeirra um 85°C.