Fíflasalat

fiflasalat Það eru til þúsundir yrkja af fíflum í heiminum en þau eru misbeisk á bragði og þau afbrigði sem sem minnstu beiskjuna hafa eru sérstaklega ræktuð fyrir næringarríku blöðin.  Ég veit nú ekki til þess að fíflar séu ræktaðir hér á landi en langalgengasta fíflategundin sem vex villt um sveitir landsins er túnfífillinn. Blöð hans eru frekar beisk á bragðið og verða beiskari eftir því sem líður á sumarið, því er best að tína þau snemmsumars. Einnig gott að hylja fíflana nokkrum vikum áður blöðin eru nýtt því þeir fíflar sem fá mikla sól mynda meira af þeim efnum sem gera þá beiska. Í þetta salat valdi ég fífla sem uxu á frekar skuggsælum stað og huldi þá í um tvær vikur. Blöðin voru enn tiltölulega beisk en salatdressingin sló mikið á hana. Ástæðan fyrir því er saltið í dressingunni. Þegar salt er notað í matargerð þá er það í fæstum tilfellum til að fá saltbragð heldur til að draga fram náttúrulegt bragð hráefnanna. Töfrar saltsins felast einnig í því að það slær á beiskju og það er lykilatriðið í þessu salati. Fíflablómin eru ekki beisk eins og blöðin, heldur tiltölulega sæt vegna blómasafans í miðjunni. Með því að dýfa þeim í soppu sem kallast tempura og djúpsteikja þau í grísafeiti bætum við annarri áferð í salatið. Stökk blómin fara vel með linum eggjunum, söltu beikoninu og ögn beiskum fíflablöðunum. Handa fjórum

Innihald

Fíflasalat 4 stór egg 1 skalottlaukur, saxaður smátt 1 matskeið eplaedik 1 teskeið fíflasíróp ¼-½ teskeið salt, allt eftir því hversu salt beikonið er ⅛ teskeið pipar 150 grömm heill beikonbiti, skorinn í 1 sentímetra þykkar sneiðar og svo 1 sentímetra bita 20 stykki djúpsteikt fíflablóm í tempura (sjá hér fyrir neðan) 100 grömm fíflablöð Fíflablóm í tempura 2 kíló grísafeiti 2 eggjarauður 500 millilítrar ískalt sódavatn 1 lúka af klökum 250 grömm hveiti 20 stykki fíflablóm

Leiðbeiningar

  1. Hitið um 1 lítra af vatni á hæsta hita í litlum potti og náið upp suðu. Lækkið undir pottinum í lægsta hita og leggið eggin varlega ofan í pottinn með skeið. Vatnið ætti bara rétt að malla og eggin ættu ekki að veltast mikið um. Setjið lok á pottinn og eldið eggin í 11 mínútur. Um leið og eggin eru tilbúin hellið þá vatninu af og látið ískalt vatn renna á eggin í svona 5 mínútur. Leyfið eggjunum að liggja í vatninu í að minnsta kosti 5 mínútur lengur. Leggið sigti í vaskinn og takið skurnina af eggjunum undir köldu rennandi vatni. Skerið hvert egg í fjóra báta.
  2. Blandið saman söxuðum skalottlauk, eplaediki, fíflasírópi, salti og pipar í lítilli skál. Steikið beikonbita á þurri lítilli pönnu við miðlungslágan hita í um 15 mínútur eða þar beikonið er enn mjúkt en tiltölulega stökkt að utan. Passið að feitin af beikoninu brenni ekki við og lækkið hitann ef beikonið virðist brúnast of fljótt. Fjarlægið beikonbitana af pönnunni og leggið á eldhúspappír. Hellið heitri beikonfeitinni, sem ætti að vera um 2 til 3 matskeiðar, í skálina með skallotlauksblöndunni og hrærið þar til myndast hefur einsleit þeyta.
  3. Bræðið grísafeitina í góðum þykkum potti þannig að feitin fylli einungis hálfan pottinn. Hitið hana upp í 180°C og reynið að halda því hitastigi. Lagið tempura-soppuna rétt áður en feitin nær réttu hitastigi. Sláið eggjarauður saman í miðlungsstórri skál og hrærið sódavatninu og klökunum saman við. Bætið öllu hveitinu út í einu og hrærið mjög varlega með gaffli svo úr verði kekkjótt soppa. Hrærið sem allra minnst í soppunni til að koma í veg fyrir glútenmyndun.
  4. Veltið fíflablómunum upp úr hveiti,  dýfið þeim í soppuna og beint í heita feitina. Dýfið puttunum í soppuna og dreifið henni yfir blómin í pottinum. Þessir dropar af soppu munu loða við blómin og gera þau enn stökkari. Steikið eins mörg blóm í einu eins og þið treystið ykkur til. Blómin eru til þegar soppan er orðin gullinbrún að lit, um 2 mínútur. Fjarlægið blómin úr pottinum með gataspaða og leggið á eldhúspappír.
  5. Klæðið fíflablöðin með salatdressingunni um leið og fíflablómin eru tilbúin. Raðið beikonbitum, eggjum og djúpsteiknum fíflablómum ofan á og njótið sem fyrst svo blómin verði sem stökkust.