Flatkökur

Hægt er að steikja flatkökur á ýmsa vegu en upphaflega voru þær steiktar beint á  glóðum. Nú er hins vegar vaninn að steikja þær á eldavélarhellu og þá helst úti við þar sem það kemur svo mikil reykjarbræla, eða sterkja eins og það er einnig kallað,  af steikingunni. Ég hef einnig séð fólk svíða þær með gasi, rétt eins og sviðahausa. Sjálfur steikti ég þær á þykkri steypujárnsplötu yfir eldi og fergði kökurnar með þungri pönnu til að fá jafnari steikingu og koma í veg fyrir að loftbólur mynduðust í deiginu. Ég myndi halda að einnig væri hægt að grilla þær.

Hér má sjá myndband af flatkökum steiktum á eldavélahellu:

Hér má sjá myndband af flatkökum sviðnum með gasi:

Uppskriftin hér er byggð á uppskrift Helgu Sigurðardóttur í bókinni Matur og drykkur.

Innihald

Í um 10 flatkökur

200 grömm hveiti
200 grömm heilhveiti
200 grömm rúgmjöl
4 teskeiðar lyftiduft
1 teskeið salt
500 millilítrar sjóðandi vatn

Leiðbeiningar

  1. Blandið öllum þurrefnunum saman og vætið síðan upp í með sjóðandi vatni. Hnoðið deigið þar til það rétt kemur saman. Rúllið deiginu í langan stóran sívalning og skiptið deiginu í 10 hluta.
  2. Stráið vel af hveiti á borðið og fletjið hvern deighluta í 3 millimetra þykka köku. Skerið kökurnar út undan diski, til að þær séu verði allar jafnstórar, en mínar voru í kringum 20 sentímetrar í þvermál. Staflið þeim öllum saman á disk og pikkið síðan í gegnum allan staflann með kökuprjón. Það kemur í veg fyrir að gufa festist undir kökunum þegar þær eru steiktar, sem gerir steikinguna ójafna.
  3. Stillið eldavélarhellu á hæsta hita og steikið flatkökurnar beint á heillunni, þá helst úti við. Þrýstið ofan á kökurnar með fiskispaða til að þær brúnist jafnt og steikið í um 1 mínútu á hvorri hlið. Dýfið kökunum örsnöggt í kalt vatn um leið og þær koma af hellunni og staflið í rakt stykki til að þær þorni ekki og verði stökkar.
  4. Geymið flatkökurnar í loftþéttu íláti og ef ekki á að borða þær á næstu dögum þá er best að geyma þær í frysti.