Bygg- og kúmenrúgbrauð

Það er hægt að gera mismunandi útfærslur á brauðinu sem bakað var í þriðja þætti. Á bændamarkaðinum í Reykholti vorum við með heilhveitibrauð, byggbrauð og svo kúmenrúgbrauð.

Steikarsamlokur

Við buðum upp á þessar borgfirsku steikarsamlokur á bændamarkaðinum í Reykholti. Kornið í brauðinu kom frá Ásgarði, ricottaosturinn, rauðlaukssultan og salatið úr Árdal og nautakjötið var frá Glitstöðum í Norðurárdal.

Heilhveitibrauð

Hugmyndin um að baka brauð í steypujárnspotti náði fyrst almennri hylli þegar Mark Bittman hjá New York Times birti árið 2006 uppskrift af brauði úr smiðju Jim Lahey í Sullivan Street bakaríinu á Manhattan. Tímaritið Cooks Illustrated endurbætti síðan uppskriftina, meðal annars með því að bæta við bjór og ediki til að líkja eftir því flókna bragði sem bakarar ná í brauðum sínum.

Smurbrauð með nýtíndum fíkjum

Það er ótrúlegt hvað hægt er að rækta á Íslandi og það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því. Að Rauðsgili í Hálsasveit er búið til hunang, í Ásgarði í Reykholtsdal er ræktað hveiti, rúgur, hafrar og bygg og á Jaðri í Bæjarsveit má meðal annars finna fíkjur, vínber, maís, grasker og belgpipar. Allir þessir staðir eru innan við hálftíma frá hvor öðrum.

Ricotta

Ekta ricotta er gerður úr mysunni sem fellur til úr annari ostagerð en orðið merkir bókstaflega endursoðin. Mysan er hituð aftur upp til að ná öllum mögulegum ostefnum úr henni sem hugsanlega geta setið eftir en þetta er gert til þess að nýta mjólkina til hins ýtrasta. Það er hægara sagt en gert að nálgast nógu mikið magn af mysu til að gera ricotta að ráði og nota ég því nýmjólk í þessari uppskrift. Sama aðferð er notuð til að búa til indverska ostinn paneer.

Jarðaber með sabayon

Hlutföllin í klassískri sabayonsósu eru 1 eggjarauða á móti 1 matskeið af sykri og 1 matskeið af marsalavíni. Í stað marsalavíns má nota hvítvín, freyðivín, líkjöra, ávaxtasafa eða rabbabaravín eins og í þessari uppskrift.

Smjör og áfasúpa

Það er hægt að búa til smjör með því fylla stóra krukku hálfvegis með rjóma sem er við herbergishita og hrista svo duglega. Það er þó mun auðveldara að setja rjómann í hrærivél. Það tekur um 5 mínútur að hrista út smjör úr 500 millilítrum af rjóma en skotstund í hrærivél. Reynið að ná sem mestum áfum úr smjörinu með því að skola það úr ísköldu vatni og hnoða því það eru þær sem minnka geymsluþol smjörsins. Með því að salta smjörið eykst geymsluþolið enn frekar.

Ostafrauð

Þessi uppskrift er í raun þrjár uppskriftir: uppstúf, mornaysósa og ostafrauð. Fyrst er búin til þykkur jafningur en með meiri mjólk væri komið þetta fína uppstúf og þegar osturinn og eggjarauðurnar eru komnar út í verður þetta mornaysósa. Mikilvægt er að sjóða jafninginn í 3 mínútur til að koma í veg fyrir að hrátt hveitibragði verði af sósunni.

Geitapottréttur

Karrí er nokkurs konar samheiti yfir ýmsar kryddblöndur sem eiga rætur að rekja til Indlands. Þær geta verið æðimismunandi en algengt er að þær innihaldi meðal annars túrmerik, sem gefur gula litinn sem flestir tengja við karrí. Það er gott að fara varlega með túrmerik því það litar auðveldlega föt og annað sem dregur í sig lit. Kryddblandan í þennan rétt fær karabískan keim með tilkomu allrahanda, sem eru þurrkuð ber af Pimenta dioica trénu, og er stundum kallað jamaíkupipar.

Tortelloni með graskersfyllingu

Þessi tortelloniuppskrift kemur frá Ferrara á Ítalíu og er það borið fram með saðsamri kjötsósu. Það er gaman að búa til sitt eigið pasta og ef engin pastavél er á heimilinu þá er alveg hægt að fletja degið út í höndunum, sem er þó töluvert erfiðara. Þegar degið er flatt út í pastavélinni er gott að skera lengjurnar til helminga þegar þær eru orðnar of langar til að meðhöndla.