Franskt núggat

Á Ítalíu kallast þetta sælgæti torrone, á Spáni heitir það turrón og Frakkarnir kalla það nougat. Allir virðast því vilja eigna sér þetta gómsæta sælgæti sem ég kalla bara franskt núggat. Í uppskriftinni eru fá hráefni en það getur verið vandasamt að koma þeim öllum saman svo útkoman verði góð.

Grafnar andabringur

Grafið kjöt vekur alltaf eftirtekt í matarboðum en fáir vita kannski að það er sáraeinfalt og auðvelt að útbúa það. Eina sem til þarf er kjöt, salt, smá þolinmæði og krydd. Verið ekkert að spara saltið því magnið segir ekki til um hversu salt kjötið verður heldur fer það eftir hversu lengi það liggur í saltinu. Hægt er að nota næstum hvaða kjöt sem er en oftast er magurt og fitulítið kjöt notað.

Blini

Blini eru pönnukökur sem tilheyra rússneskri matarhefð og eru bakaðar úr geri. Hefð er fyrir því að nota bókhveiti í þær sem er, þrátt fyrir nafnið, ekkert skylt hveiti heldur er það fræ af jurt skyldri súrum og rabbabara. Hnetulegur keimur þess fer einstaklega vel með söltu áleggi. Það er hægt að leika sér endalaust með álegg en hér eru þrjár tillögur: grafin önd, sýrður rjómi, trönuberjasinnep, örsmár bátur af smátómati og steinselja; grafinn lax, sýrður rjómi, hrogn og ferskt dill; heimareykt hangikjöt, sýrður rjómi bragðbættur með dijonsinnepi og vorlaukur.

Marineruð síld

Við Íslendingar borðum lítið af síld miðað við hvað við veiðum mikið af henni. Helst borðum við hana marineraða yfir jólahátíðina en auðvelt er að búa til sína eigin jólasíld. Fyrst þarf að útvega sér góða saltsíld sem ætti að vera hægt að finna í helstu fiskbúðum.

Seytt hverarúgbrauð

Til eru margar tegundir af rúgbrauði og þekkist það víðar en á Íslandi, meðal annars á hinum Norðurlöndunum og í Austur-Evrópu. Það sem er hins vegar einkennandi við hinn týpíska íslenska rúgbrauðskubb, er hversu lengi hann er bakaður og hversu sætur hann er.

Rauðrófuís

Venjulega eru eggjarauður notaðar til að þykkja búðinga í ísgerð en oft finnst mér þær gefa ísnum of mikið eggjabragð. Í þessari uppskrift þykki ég búðinginn með kartöflumjöli og þannig fá rauðrófurnar að njóta sín. Ástæðan fyrir rjómaostinum er sú að í honum er mikið af próteini sem kallast kasein sem hjálpar til við að koma í veg fyrir ískristallamyndun þegar ísinn er frystur. Markmiðið er að ískristallarnir í ísnum verði eins fáir og litlir og mögulegt er, svo ísinn verði alveg flauelsmjúkur.

Anda-confit

Bringurnar eru ekki einu verðmætin á öndinni og er um að gera að nýta allan fuglinn. Það er hægt að bræða afskurðina og fá þessa ótrúlega bragðgóðu steikingarfeiti. Einnig er hægt að rista beinin ætti að rista og búa til soð fyrir súpur og sósur. Hálsinn má fylla og eins má nýta innmatinn í ýmsa góða rétti. Síðast en ekki síst eru það andaleggirnir sem sumir virðast ekki hirða um en það finnst mér algjör synd því úr þeim er hægt að gera frábært confit.

Jólaglögg

Á köldum vetrarkvöldum þegar kuldabolinn bítur fast í kinnarnar er afskaplega notalegt að ylja sér með heitu krydduðu víni eða glöggi. Það er látið malla í klukkutíma til að elda hráa bragðið úr víninu og svo það fái nægan tíma til að draga í sig ilm- og bragðríku innihaldsefnin. Ekki láta glöggið sjóða því þá getur það orðið rammt.

Heitreykt síld

Í hvert skipti sem ég fletti upp í gömlum dagblöðum til að kynna mér síldarverkun kom fram að við Íslendingar ættum að vera duglegri að nýta okkur síldina og enn þann dag í dag virðumst við ekki líta við henni nema hún sé súrsuð í krukku. Sem er synd því hún er mjög næringarrík og bragðgóð hvort sem hún er söltuð, súrsuð eða fersk.

Súkkulaðibitakökur

Það eru nokkrir hlutir sem mér finnst nauðsynlegir í desember og um jólahátíðina: eyða tíma með fjölskyldu og vinum, mandarínur, konfekt og svo smákökur. Það eiga allir sína uppáhalds sort en mín er súkkulaðibitakökur. Þessar smákökur eru með djúpu karamellubragði, stökkar að utan, mjúkar að innan og stútfullar af súkkulaðibitum og ristuðum valhnetum.