Franskt núggat

nuggat

Á Ítalíu kallast þetta sælgæti torrone, á Spáni heitir það turrón og  Frakkarnir kalla það nougat. Allir virðast því vilja eigna sér þetta gómsæta sælgæti sem ég kalla bara franskt núggat. Í uppskriftinni eru fá hráefni en það getur verið vandasamt að koma þeim öllum saman svo útkoman verði góð.

Áferð núggatsins fer eftir hlutfalli sykurs og hunangs, hitastigi sykursins þegar hann er bráðinn, hversu lengi hrært er í og jafnvel hita- og rakastigi herbergisins sem það er gert í. Til dæmis verður núggatið harðara eftir því sem hitastigið á bráðnum sykrinum er hærra.

Hefðbundið er að hafa möndlur og pistasíuhnetur í þessu núggati en það er til dæmis hægt að nota hvers konar hnetur, þurrkaða ávexti, kakónibbur og sítrusbörk.

Það er alveg hægt að hræra núggat í höndunum eins og ég gerði í þáttunum, en mér finnst ég fá áferðabetra núggat með því að gera það í hrærivél.

Innihald

500 grömm strásykur
100 millilítrar vatn
250 grömm gott hunang
2 eggjahvítur
250 grömm möndlur, ristaðar
100 grömm pistasíuhnetur, ristaðar
100 grömm trönuber

Leiðbeiningar

  1. Penslið form sem er aðeins minna en A4 blað (um 20 sentímetrar á breidd og 30 sentímetrar á lengd) með olíu, klæðið það með bökunarpappír og penslið hann svo með olíu.

  2. Blandið saman strásykri og vatni í miðlungsstórum potti. Ef einhver sykur hefur slest á hliðar pottsins, bleytið þá pensil með vatni og strjúkið hann af. Bætið hunanginu við án þess að hræra í og hitið blönduna við miðlungsháan hita. Ekki hræra í á meðan.

  3. Þegar hitastig hunangsblöndunnar er farið að nálgast 140°C, stífþeytið þá eggjahvíturnar í hrærivél. Um leið og blandan nær 160°C, hellið henni þá í mjórri bunu saman við eggjahvíturnar með hrærivélina á miðlungshraða. Haldið áfram að hræra í 5 mínútur. Skiptið þá þeytaranum út fyrir hrærara (stundum kallað K-ið). Bætið við möndlum, pistasíuhnetum og trönuberjum og hrærið í stutta stund, þar til allt hefur blandast vel saman.

  4. Komið núggatinu fyrir eins fljótt og mögulegt er í formið, þrýstið því í öll horn og sléttið það út. Klippið út bökunarpappír sem passar ofan á núggatið, penslið hann með olíu og leggið ofan á.

  5. Látið núggatið stífna í um hálfan sólarhring. Takið það þá úr forminu, fjarlægið bökunarpappírinn og skerið það í fallega bita. Komið bitunum fyrir í loftþéttu íláti og sjáið til þess að þeir snertist ekki því þeir munu festast saman. Geymið á svölum stað.