Frönsk lauksúpa

Ég á góðar minningar af því að fara með móður minni á veitingastaðinn Ítalíu á köldum vetrardögum, sitja í glugganum og borða sjóðheita gratineraða lauksúpu, Zuppa di cipolle gratinata. Þessi tegund af súpu er þó oftast kennd við Frakkland og segir sagan að Loðvík XV Frakklandskonungur eigi heiðurinn að henni. Svangur eftir langa veiðiferð á hann að hafa komið heim í tómt matarbúrið en fundið poka af laukum, afgang af nautasoði og kampavín. Hvort gamalt brauð og ostbiti hafi einnig verið til staðar fylgir ekki sögunni. En lauksúpur hafa verið til frá örófi alda og töldu Persar og Forngrikkir að laukur gæfi mönnum hugrekki og lukku. Er talið að hermenn þeirra hafi því oft nærst á lauksúpu borna fram með þurru brauði.

Margar uppskriftir að franskri lauksúpu tilgreina afskaplega lítið magn af lauk og elda hann eingöngu í um 20 mínútur, ef svo lengi, en það tekur að lágmarki klukkutíma yfir vægum að karamella lauk almennilega. Til þess að þurfa ekki að standa langtímum saman yfir eldavélinni er best að elda hann að megninu til inni í ofni. Uppskriftin hér dugar eingöngu í súpuna en vegna tímans sem tekur að elda laukinn mæli ég með því að gera eins mikið magn og þið getið og eiga í frysti í litlum skömmtum. Hægt er að nota karamellaðan lauk í svo margt: til að gera ídýfu, ofan á hamborgara, í bökur, ofan á brauð eða í pastarétti.

Fyrir 6

Innihald

Karamellaður laukur
1 kíló gulur laukur
50 grömm smjör
1 teskeið salt

Lauksúpa
100 millilítrar þurrt sérrí, koníak eða dökkur bjór
1,5 lítrar hanasoð, kjúklingasoð, nautasoð eða blanda af þessum þremur
5 timjangreinar
2 lárviðarlauf
Salt og nýmalaður svartur pipar
6 sneiðar af góðu baguette, 2 sentímetra þykkar
250 grömm velþroskaður Gouda-ostur, rifinn
Nokkrir graslaukar, fínsaxaðir

Leiðbeiningar

Karamellaður laukur

  1. Forhitið ofn í 200°C. Flysjið laukana, helmingið þá og takið rótina af. Skerið laukinn langsum í 5 millimetra þykkar sneiðar.
  2. Setjið  laukinn, smjörið og saltið í steypujárnspott eða annan þykkan hitaþolinn pott og leggið lok ofan á. Eldið laukinn inni í ofni í um 1 klukkutíma en hann minnkar töluvert að rúmmáli og vökvi safnast fyrir á botni pottsins.
  3. Hrærið aðeins í lauknum og setjið pottinn aftur inn í ofn með lokið örlítið opið svo lauksafinn gufi upp. Eldið laukinn 1 ½ tíma lengur og hrærið í pottinum af og til. Notið blautan laukinn til að leysa upp uppþornaðan lauksafa á hliðum pottsins.
  4. Færið pottinn yfir á miðlungsheita hellu, hrærið oft í og eldið laukinn þar til dökk skán myndast á botni pottsins. Hellið örlitlu vatni í pottinn og leysið upp skánina. Endurtakið þetta ferli 4 sinnum til viðbótar, þar til laukurinn er dökkbrúnn að lit.
  5. Ef laukurinn er ekki notaður strax í súpuna ætti hann að geymast vel í viku í kæli en best er að frysta hann í litlum skömmtum og geymist hann þá í um 3 mánuði, jafnvel lengur.

Lauksúpa

  1. Hellið sérríinu í pottinn og hrærið í lauknum þar til vínið er að mestu uppgufað. Bætið soðinu, timjangreinunum og lárviðarlaufunum við laukinn og látið súpuna malla í 30 mínútur. Fjarlægið þá kryddjurtirnar og kryddið súpuna með salti og nýmöluðum svörtum pipar.
  2. Gerið ostabrauðin klár á meðan súpan mallar. Setjið brauðsneiðarnar inn í 200°C heitan ofn og ristið þær í um 10 mínútur eða þar til þær eru fallega gullinbrúnar. Snúið þeim eftir 5 mínútur til að þær ristist jafnt. Hyljið brauðin með hluta af rifna Gouda-ostinum og bakið þar til osturinn er bráðinn.
  3. Skiptið súpunni á milli 6 súpuskála, setjið rifinn ost í hverja þeirra og leggið ostabrauðið ofan á. Skreytið að lokum með fínsöxuðum graslauk.