Fylltur kúrbítur

„Uppskriftin hér er sáraeinföld: sá og planta að vori, uppskera að hausti og síðan bara elda og njóta. Það eru engar reglur og engin hlutföll, heldur bara að njóta þess sem garðurinn hefur upp á að bjóða hverju sinni.“ Þetta sagði ég einum þætti af Hinu blómlega búi og ég meinti það. Hér verður því engin eiginleg uppskrift heldur frekar hvatning til að rækta eigið grænmeti og elda það á þann máta sem maður kýs.

Fyllinginn í kúrbítinn mætti kalla biximat en hann þekkist víða. Í Svíþjóð og Noregi kallast hann pytt i panna, eða smátt skornir bitar í pönnu, og í Ameríku hash, sem er dregið af franska orðinu hacher, sem þýðir að brytja niður. Oftast eru afgangar gærdagsins nýttir í biximat, svo sem smátt skorið lambakjöt og kartöflur, sem er svo steikt á pönnu ásamt lauk og kryddum og borið fram með spældu eggi.

Garðurinn í Árdal bauð upp á ýmislegt þetta sumarið: risavaxinn kúrbít; lauka; kartöflur; gulrætur af öllum stærðum og gerðum; rauð-, gullin- og randabetur; eldpipar; beðjur í öllum regnboganslitum; hind-, rifs- og stikilsber; ýmsar tegundir af salati og meira en nóg af kryddjurtum. Margt af þessu nýttist mér til að fylla kúrbítsskálina mína.

Flest grænmetið skar ég í litla bita og steikti á pönnu ásamt vænni flís af heimagerðu beikoni. Ég steikti allt heila klabbið í frekar lítilli pönnu þannig að það soðnaði frekar en að steikjast, sem kom bara ágætlega út, en betra væri ef pannan hefði verið aðeins stærri.  Ef maður vill flækja eldamennskuna frekar væri best að steikja þéttasta grænmetið fyrst og bæta svo jafnóðum við því sem er mýkra eða skorið smærra.

Undir lok steikingarinnar er gott að bæta við slurk af góðu víni og skrapa botn pönnunnar til að leysa upp bragðmiklar skófirnar. Blöð af betum eða beðju er best að bæta við í endann til að þau haldi lit sínum og bragði betur. Það sama gildir um ferskar kryddjurtir.

Það sem steikt er á pönnunni endar allt á að líta svipað út og því þykir mér best að baka eða grilla litríkt rótargrænmeti, eins og gulrætur og randa- og gullinbetur, í heilu eða hálfu lagi og skera svo í litla bita. Þá varðveitast þessir ótrúlegu skæru litir þeirra, sem lífga upp á biximatinn.

Í lokin finnst mér gott að rífa gommu af söltum bragðmiklum osti, svo sem parmesan, og bræða yfir allt saman. Hefði ég verið inni í eldhúsi í stað þess að vera út í garði þá hefði ég eflaust sleppt kúrbítskálinni og spælt egg í staðinn.

Svona finnst mér gott að hafa biximatinn minn. Hvernig vilt þú hafa þinn?