Gazpacho

gazpacho

Þegar ég hugsa um íslensk gróðurhús dettur mér aðallega í hug tómatar, gúrkur og paprika en þessi þrjú hráefni eru einmitt undirstaðan í gazpacho, sem er köld maukuð grænmetissúpa. Hún er ekkert elduð heldur eingöngu maukuð og í rauninni má segja að gazpacho sé hreinlega maukað salat. Maukið í rauninni hvaða salat sem er og þið eruð komin með útgáfu af gazpacho. Þar sem súpan er óelduð þá skiptir mjög miklu máli að allt hráefnið í henni sé ferskt og fyrsta flokks.

Fyrir 6-8

Innihald

1 kíló vel þroskaðir bufftómatar, naflinn fjarlægður og tómatarnir skornir í grófa bita
2 teskeiðar salt
Nýmalaður svartur pipar
2 rauðar paprikur (tæplega 500 grömm), fræhreinsaðar og skornar í grófa bita
1 stór gúrka (tæplega 500 grömm ),  skorin í grófa bita
2 litlir rauðlaukar, flysjaðir og skornir í grófa bita
3 hvítlauksgeirar, flysjaðir og marðir
Væn lúka af ferskum oreganolaufum
250 millilítrar jómfrúarolía
3 matskeiðar eplaedik
Ísmolar (má sleppa)
Úrval af ferskum kryddjurtum

Leiðbeiningar

  1. Setjið helminginn af tómötunum í stóra skál, stráið þriðjungnum af saltinu yfir og piprið rausnarlega. Bætið við restinni af grænmetinu í skálina ásamt oreganolaufunum og kryddið á saman hátt. Setjið loks hinn helminginn af tómötunum ofan á, stráið restinni af saltinu yfir og piprið. Hellið ólífuolíu og eplaediki yfir grænmetið og látið standa í um 30 mínútur. Á þessum tíma um saltið draga vökva úr grænmetinu og þannig mýkja það svo auðveldara sé að mauka það.
  2. Grænmetið er sett í gegnum grænmetiskvörn (sem er ágætis líkamsrækt!) og verður súpan þá með nokkuð grófri áferð. Til að auðvelda sér vinnuna og/eða fá flauelsmjúkt gazpacho þá er hægt að mauka grænmetið í blandara.
  3. Súpan er þá brögðuð til með salti, pipar og ediki. Hún er skreytt með skvettu af jómfrúarolíu og blöndu af ferskum kryddjurtum. Til að hafa súpuna ískalda er hægt að bera hana fram með klökum eða kæla hana í kæliskáp í allt að tvo daga. Með súpunni er gott er að narta í nýbakað súrdeigsbrauð með góðu smjöri.