Geitapottréttur

Handa 8-10

geitapottretturKarrí er nokkurs konar samheiti yfir ýmsar kryddblöndur sem eiga rætur að rekja til Indlands. Þær geta verið æðimismunandi en algengt er að þær innihaldi meðal annars túrmerik, sem gefur gula litinn sem flestir tengja við karrí. Það er gott að fara varlega með túrmerik því það litar auðveldlega föt og annað sem dregur í sig lit. Kryddblandan í þennan rétt fær karabískan keim með tilkomu allrahanda, sem eru þurrkuð ber af Pimenta dioica trénu og er stundum kallað jamaíkupipar. Ef ekki er hægt að nálgast ómalað krydd þá er hægt að nota malað. Magnið helst það sama því þótt 1 tekseið af ómöluðu kryddi vegi minna en 1 teskeið af möluðu þá er heila kryddið mun bragðmeira.

Geitakjöt er hægt að nálgast hjá Jóhönnu á Háfelli eða öðrum geitabændum á landinu. Kíkið inn á vef Beint frá býli til þess að nálgast upplýsingar. Það er líka hægt að nota lambakjöt eða nautakjöt í þennan pottrétt.

Innihald

Karríblanda
3 matskeiðar kóríanderfræ
2 matskeiðar túrmerik
1 matskeið broddkúmenfræ/kumminfræ
1 teskeið allrahandaber
1 teskeið fenugreekfræ
1 teskeið brún sinnepsfræ
1 teskeið anísfræ
1 teskeið malað engifer
1 teskeið nýmalaður pipar
Cayennepipar, eftir smekk
Múskat, eftir smekk

Pottréttur
4 matskeiðar olífuolía
1,5 kg geitakjöt, skorið í 5 sentímetra teninga
8 matskeiðar karríkryddblanda
2 laukar, saxaðir smátt
2 chilipipar, saxaður smátt
1 þumlalstórt ferskt engifer, rifið
1 heill hvítlaukur, geirarnir flysjaðir og saxaðir smátt
1 dós kókosmjólk
1 dós af heilum tómötum
1 hnefi blóðberg
500 grömm kartöflur, skornar í 3 sentímetra bita
500 grömm gulrætur, skornar í 3 sentímetra bita

Leiðbeiningar

Kryddblanda
Hitið pönnu yfir miðlungshita, ristið öll heilu kryddin í sitthvoru lagi þar til þau eru farin að ilma og steytið. Blandið öllum kryddunum saman.

Pottréttur

  1. Hitið olíu á stórri pönnu við miðlungsháan hita. Þerrið kjötið vel, veltið því upp úr helmingnum af karríblöndunni og steikið í skömmtum svo það brúnist vel á öllum hliðum. Setjið kjötið til hliðar.

  2. Flytjið kryddolíuna sem myndast hefur á pönnunni yfir í stóran pott og hitið yfir miðlungshita. Brúnið lauk og chilipipar, tekur um 5 mínútur, og bætið því næst hvítlauk og engifer við og eldið í skamma stund. Setjið geitakjöt í pottinn og hrærið öllu vel saman. Bætið kókosmjólk, tómötunum, restinni af karríinu og blóðberginu út í pottinn og blandið vel saman.

  3. Látið suðuna koma upp og látið malla við vægan hita í að minnsta kosti tvo tíma eða þar til kjötið er við það að detta í sundur. Þegar pottrétturinn er við það að verða tilbúinn bætið kartöflunum og gulrótunum saman við. Eldið þangað til kartöflurnar og gulræturnar eru eldaðar í gegn, um 15 mínútur.

  4. Berið geitapottréttinn fram með hrísgrjónum og fersku salati.