Graflax

Í eitt flak

graflaxÞetta er graflax í sinni einföldustu mynd en það er hægt að krydda hann til dæmis með kúmeni, rauðrófum, sítrónuberki eða gefa honum austurlenskan blæ með púðursykri og sojasósu. Við höfum einnig prófað að bragðbæta laxinn með furunálum en sumir telja að graflax hafi upphaflega verið gerður þannig. Það er um að gera að prófa sig áfram.

Saltið dregur vatn úr fiskinum þannig að hann verður þurrari og stífari . Vatnið bræðir saltið og sykurinn og mun fiskurinn á endanum draga bragðefnin í sig. Það er því gott að pakka honum vel inn í plastfilmu til að halda bragðmiklum vökvanum að holdinu.

Það er hægt að grafa fleira heldur en lax, eins og til dæmis bleikju, lúðu og einnig kjöt svo sem kindakjöt og hrossakjöt.

Innihald

1 kílógramma laxaflak, beinhreinsað og með roði
100 grömm sjávarsalt
100 grömm sykur
Nýmalaður pipar
2 búnt ferskt dill

Leiðbeiningar

  1. Leggið á borð plastfilmu sem passar fyrir laxaflakið. Blandið saman sjávarsalti, sykri og dreifið þunnu lagi af blöndunni á plastfilmuna. Leggið flakið ofan á með roðhliðina niður og dreifið restinni af saltblöndunni yfir. Merjið annað dillbúntið og leggið ofan á laxinn þannig að það hylji hann vel og pakkið honum þétt í plastfilmu. Setjið laxinn í ílát og geymið í kæliskáp í einn til tvo daga.

  2. Strjúkið dillið og saltblönduna af flakinu, skolið það snöggt undir rennandi köldu vatni og þerrið. Saxið blöðin af hinu dillbúntinu smátt og dreifið yfir allan laxinn.

  3. Hægt er að geyma laxinn í loftþéttu íláti inni í kæliskáp í eina til tvær vikur.