Grafnar andabringur

andabringur
Grafið kjöt vekur alltaf eftirtekt í matarboðum en fáir vita kannski að það er sáraeinfalt og auðvelt að útbúa það. Eina sem til þarf er kjöt, salt, smá þolinmæði og krydd. Verið ekkert að spara saltið því magnið segir ekki til um hversu salt kjötið verður heldur fer það eftir hversu lengi það liggur í saltinu. Hægt er að nota næstum hvaða kjöt sem er en oftast er magurt og fitulítið kjöt notað.

Í kryddhjúpinn má nota hvaða krydd og kryddjurtir sem er og það er um að gera að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Kryddjurtirnar í þessari uppskrift eru þær sömu og ég þurrkaði og var með í matjurtargarðinum í sumar.

Innihald

4 andabringur
Gróft salt, nægilega mikið til að hylja bringurnar

Kryddhjúpur
1 matskeið kóríanderfræ
1 matskeið einiber
1 matskeið sinnepsfræ
1 teskeið svartur pipar
1 teskeið rósapipar
1 matskeið þurrkað timjan
1 matskeið þurrkuð minta
1 matskeið þurrkað oregano
1 matskeið þurrkuð sítónumelissa

Leiðbeiningar

  1. Fjarlægið skinnið af andabringunum og snyrtið hana til með því að skera mestu fituna og sinar í burtu. Hyljið bringurnar með salti og látið þær standa við stofuhita í 2-4 klukkustundir en það fer allt eftir þykkt kjötsins og hversu salt maður vill það. Bringurnar verða stinnar og dökkfjólubláar að lit.

  2. Takið bringurnar úr saltinu, skolið undir rennandi köldu vatni og þerrið vel.

  3. Grófsteytið kóríander, einiber, sinnepsfræ, svartan pipar og rósapipar í mortéli. Blandið þurrkuðu kryddjurtunum vel saman við. Hyljið tvær andabringur með kryddblöndunni, leggið þær saman og pakkið þétt í tvö lög af plastfilmu.  Snúið upp á endana svo kryddhjúpurinn haldist þétt að kjötinu.

  4. Geymið í kæliskáp í að minnsta kosti einn sólarhring.