Grillað grænmeti

grillad-graenmeti

Grænmeti inniheldur náttúrlegan sykur sem karamellast við háan hita og við það myndast hundruð nýrra efnasambanda. Með því að grilla grænmetið (eða baka inni í ofni) umbreytist það og bragðið verður mun dýpra og flóknara en ef það væri til dæmis soðið – það verður í raun að algjöru sælgæti! Grænmeti er misþétt í sér og því þarf það mismunandi eldunar tíma og hita.

Með grilluðu grænmeti er tilvalið að bera fram salatdressingu með brúnuðu smjöri. Gætið að því, dressingin harðnar ef hún kólnar og hentar því illa að hafa lengi úti við í svölu veðri.

Fyrir 6-8

Innihald

Salatdressing
10 grömm möndlur, hýðislausar
½ skalottlaukur, fínsaxaður
60 grömm smjör
2 matskeiðar hvítvínsedik
1 matskeið vatn
Salt og nýmalaður svartur pipar

Grænmeti
6 litlar gullrófur, um 5 sentímetrar í þvermál
6 litlar rauðrófur, um 5 sentímetrar í þvermál
3 litlar fennikur, um 10 sentímetra langar
6 litlar gulrætur, um 10 sentímetra langar
1 lítil sellerírót, um 10 sentímetrar í þvermál

Leiðbeiningar

  1. Salatdressing: Steytið möndlurnar í mortéli og setjið í litla skál ásamt skalottlauknum. Hitið smjör á lítill pönnu við miðlungshita. Hristið pönnuna af og til og skrapið botninn með sleikju. Eldið smjörið í um 5 mínútur eða þar til mjólkurþurrefnin eru orðin brún og það er kominn mildur hnetuilmur af því. Hellið heitu smjörinu í skálina með möndlunum og lauknum. Bætið loks hvítvínsediki og vatni í skálina og bragðið til með salti og pipar.
  2. Gull- og rauðrófur: Skrúbbið rófurnar og skerið blöðin af en skiljið eftir um 2 sentímetra stubb á hverri rófu. Skerið þær til helminga. Veltið þeim úr ólífuolíu og saltið. Grillið yfir miðlungshita í 20-30 mínútur og snúið þeim oft.
  3. Fennikur: Skerið þunna sneið af rótarendanum og fjarlægið öll blöð af stilkunum. Fjarlægið einnig ysta lagið ef það er brúnt og þurrt. Skerið hverja fenniku í 8 geira og verið viss um að hluti rótarinnar fylgi hverjum geira svo hann haldist saman. Veltið þeim úr ólífuolíu og saltið. Grillið yfir miðlungsháum hita í 10-15 mínútur og snúið þeim oft.
  4. Gulrætur: Skrúbbið gulræturnar og skerið toppinn af en skiljið eftir um 2 sentímetra stubb í hverri gulrót. Skerið þær endilangt til helminga.  Veltið þeim úr ólífuolíu og saltið. Grillið þær yfir háum hita í um 5-10 mínútur og snúið þeim oft.
  5. Sellerírót: Skrælið rótina vel og skerið í 1 sentímetra þykkar sneiðar.  Veltið þeim úr ólífuolíu og saltið. Grillið yfir háum hita í um 5-10 mínútur og snúið þeim oft.