Grillaðar pitsur

Í fjórar 10 tommu pitsur

grillud-pizzaAllra bestu pitsur sem ég fæ kallast Verace Pizza Napoletana og eiga rætur sínar að rekja til Napólí á Ítalíu. Þetta eru þunnbotna pitsur, með litlu áleggi, sem eru eldaðar við mjög háan hita í stuttan tíma. Til eru alheimssamtök um þessa tegund af pitsu og gilda mjög strangar reglur um hvernig þær eru gerðar og bakaðar.  Pitsuofninn á til dæmis að vera hátt í 500°C heitur og pitsurnar eiga að bakast á innan við 90 sekúndum. Heimaofnar eru langt frá því að ná þessum ofsahita en með því að grilla pitsurnar er hægt að ná fram svipuðum einkennum. Grillaðar pitsur bakast á einungis 5 mínútum og er því gott að hafa öll tól, tæki og álegg tilbúin áður en hafist er handa.

Þessar pitsur eru mjög þunnar og geta því ekki haldið uppi mjög miklu áleggi. Það er því best að vanda valið og velja fá en góð álegg. Sumt álegg, eins og tómatar, innihalda mikinn vökva sem bleytir upp í botninum og getur komið í veg fyrir að hann verði almennilega stökkur. Þá er best að skera tómatana, strá salti yfir sneiðarnar og láta leka af þeim í sigti í um 30 mínútur.

Mér finnst gott að eiga tiltækt pitsudeig inni í ísskáp. Þegar ég hef hnoðað deigið og skipt því í fjóra hluta tek ég þá hluta sem ég ætla ekki að nota, ber á þá svolitla olíu og set í litla plastpoka. Deigið endist í kæliskáp í um 3-5 daga.

Innihald

Pitsudeig
500 grömm brauðhveiti
325 millilítar volgt vatn
2 teskeiðar salt
½ teskeið þurrger

Sterk hvítlauksolía
100 millilítar jómfrúarolía
4 hvítlauksgeirar, maukaðir
½ teskeið þurrkaðar rauðar chilipiparflögur

Pitsur
300 grömm mozzarella
Álegg eftir smekk, þunnskorin

Leiðbeiningar

Pitsudeig

  1. Blandið öllum þurrefnunum saman í hrærivélaskál og hellið vatninu yfir. Hnoðið deigið á hægum hraða í tvær mínútur,  á miðlungshraða í fimm mínútur og svo aftur á hægum hraða í tvær mínútur. Hyljið skálina með röku stykki og látið hefast í um tvær klukkustundir eða þar til deigið hefur tvöfaldast að rúmmáli.

  2. Þrýstið loftinu úr deiginu og skiptið því í fjóra jafna hluta. Búið til þétta kúlu úr hverjum hluta, leggið þær á hveitistráið borð og hyljið með röku stykki. Leyfið deiginu að hvílast í um klukkutíma.

Sterk hvítlauksolía
Hitið jómfrúarolíuna, hvítlaukinn og chilipiparflögurnar í litlum potti á miðlungshita. Hrærið í af og til. Þegar byrjar að snarka í hvítlauknum er olían tilbúin. Flytjið olíuna yfir í litla skál.

Pitsur grillaðar

  1. Hitið grillið á hæsta hita, því heitara því betra.

  2. Fletjið deighlutana út á velhveitistráðu borði þannig að þeir verði 10 tommur í þvermál. Setjið hvern pitsubotn á hveitistráðan bökunarpappír, staflið þeim upp og hyljið með röku stykki þar til grillið er tilbúið.

  3. Þegar grillið er sjóðandi heitt, setjið þá einn botninn á hveitistráðan pitsuspaða eða plötu og teygið botninn aðeins til. Rennið honum síðan varlega á heitt grillið og bakið í 1-2 mínútur eða þar til dökkar grillrendur myndast á botninum. Grillið hina botnana á sama hátt.

  4. Snúið botnunum með grilluðu hliðina upp og penslið þá með hvítlauksolíu. Stráið þunnu lagi af osti yfir og setjið álegg að vild. Setjið eins margar pitsur og komast fyrir aftur á grillið og lokið því. Bakið í 2-3 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn og botninn vel brúnn. Kíkið reglulega hvort pitsubotninn sé nokkuð að brenna.

  5. Setjið ferskar kryddjurtir á pitsurnar þegar þær koma af grillinu, skerið í sneiðar og njótið!