Heitreykt síld

heitreykt-síld

Í hvert skipti sem ég fletti upp í gömlum dagblöðum til að kynna mér síldarverkun kom fram að við Íslendingar ættum að vera duglegri að nýta okkur síldina og enn þann dag í dag virðumst við ekki líta við henni nema hún sé súrsuð í krukku. Sem er synd því hún er mjög næringarrík og bragðgóð hvort sem hún er söltuð, súrsuð eða fersk.

Hér heitreyki ég ferska síld en það eru tvær meginleiðir við að reykja matvæli: kaldreyking eða heitreyking. Reykurinn í kaldreykingu er vanalega á bilinu 30-50°C  og eldar matinn ekki heldur gefur honum bara gott reykbragð. Heitreyking er venjulega á bilinu 70-90°C og eldar hann um leið.

Fyrir fjóra

Innihald

4 stykki heil síld, slógdregin, hreinsuð og hreistruð

Saltpækill
2 lítrar vatn
400 grömm sjávarsalt
200 grömm púðursykur
2 hvítlauksgeirar, marðir
1 lárviðarlauf
1 teskeið svört piparkorn
1 stjörnuanís

Leiðbeiningar

  1. Fyrir saltpækilinn: Blandið öllu  saman í potti og náið upp suðunni. Kælið pækilinn alveg niður og setjið síldina í pottinn. Látið hana marinerast í 5 klukkutíma. Takið síldina þá úr pæklinum og látið hana þorna. Þegar hún þornar myndast klístruð húð utan á fisknum sem hjálpar reyknum að loða við hann.

  2. Fyrir reykingu: Raðið kolum í hálfhring í botninn á kúlulaga kolagrilli. Hafið röðina tvo kolamola á breidd og tvo á hæð. Raðið viðarbútum ofan á kolin. Kveikið í 5 öðrum kolamolum og þegar þeir eru orðnir gráir og vel heitir, setjið þá þétt upp við annan endan á kolaröðinni. Setjið álform með vatni í hinn hluta grillsins og leggið grindina ofan á. Raðið fiskunum með magann niður, þannig að þeir snúi uppréttir, á þann hluta grillsins þar sem kolin eru ekki. Lokið grillinu og heitreykið síldina í um 4-6 tíma.

  3. Berið síldina fram með til dæmis kartöflusalati og ofnsteiktu grænmeti.