Jarðaber með sabayon

Handa 4

sabayonHlutföllin í klassískri sabayonsósu eru 1 eggjarauða á móti 1 matskeið af sykri og 1 matskeið af marsalavíni. Í stað marsalavíns má nota hvítvín, freyðivín, líkjöra, ávaxtasafa eða rabbabaravín eins og í þessari uppskrift.

Potturinn sem notaður er þarf að vera nægilega stór svo hægt sé að koma skál ofan á hann þannig að stór hluti skálarinnar sé ofan í pottinum án þess að botn hennar snerti vatnið. Á meðan skálin er yfir vatnsbaðinu er mikilvægt að hræra stanslaust í eggjarauðunum til að þær hitni jafnt og hlaupi ekki í kekki. Ef hætta þarf að hræra á einhverjum tímapunkti takið þá skálina af pottinum.

Innihald

3 eggjarauður
3 matskeiðar sykur
3 matskeiðar rabbabaravín
Jarðaber, skorin í helminga eða fjórðunga

Leiðbeiningar

  1. Hitið botnfylli af vatni í miðlungsstórum potti og náið suðunni upp. Hrærið eggjarauðurnar, sykurinn og rabbaravínið saman í miðlungsstórri skál. Lækkið hitann undir pottinum og þeytið eggjablönduna yfir vatnsbaðinu þar til froðan fer að líkjast lausþeyttum rjóma. Eggjablandan ætti þá að hafa tvöfaldast að rúmmáli og þeytarinn skilur eftir sig för á botni skálarinnar.

  2. Fyllið bikara af jarðaberjum og ausið sabayonsósunni yfir.