Kartöflusalat

kartoflusalat

Í heiminum eru til yfir 4 þúsund kartöfluyrki, nær öll ættuð úr Andesfjöllum Suður-Ameríku, en hér á landi eru fjögur yrki aðallega ræktuð: Gullauga, Helga, Rauðar íslenskar og Premiere. Svo er fólk með ýmis önnur yrki í garðinum heima hjá sér og síðasta sumar vorum við til dæmis með yrkin Cerisa og Excellency í Árdal.

Kartöfluyrki innihalda mismikla sterkju, sem ákvarðar að miklu leyti hvernig best er að nýta kartöflurnar. Excellency er til dæmis sterkjuríkt og mjölmikið yrki. Þannig kartöflur draga í sig mikið vatn og molna auðveldlega við suðu, því henta þær betur í franskar, bakaðar kartöflur og kartöflumús. Önnur yrki, eins og Cerisa, eru sterkjuminni og þéttari í sér. Þær kartöflur halda sér betur við suðu og henta til dæmis vel í kartöflusalat.

Ég borða yfirleitt kartöflur með hýðinu á, hvort sem þær eru soðnar, djúpsteiktar eða bakaðar. Þannig finnst mér þær líta betur út, það er meira kartöflubragð af þeim og svo er hýðið næringarmesti hluti kartöflunnar.

Fyrir 6

Innihald

1 kíló þéttar nýjar kartöflur, óskrældar og skornar í 2 sentímetra teninga
2 matskeiðar rauðvínsedik
1 stór sellerístöngull, fínsaxaður
1 lítill rauðlaukur, fínsaxaður
1 lúka steinselja
150 grömm majónes
1 teskeið sinnepsduft
Salt og pipar eftir smekk
2 stór harðsoðin egg, skorin til helminga og svo í 1 sentímetra bita

Leiðbeiningar

  1. Setjið kartöflur í stóran pott og hellið köldu vatni yfir þannig að það fljóti um 2 sentímetra yfir. Náið upp suðunni og bætið þá 1 matskeið af salti út í pottinn. Lækkið í miðlungshita og sjóðið kartöflurnar í tæpar 10 mínútur eða þar til þær eru orðnar meyrar. Hellið vatninu af þeim og veltið þeim strax upp úr rauðvínsediki í stórri skál.
  2. Blandið saman sellerí, rauðlauk, majónesi, sinnepsdufti og steinselju í lítilli skál. Bragðið til með salti og pipar. Þegar kartöflurnar hafa kólnað, veltið þeim varlega upp úr majónessósunni og  ásamt eggjunum. Hyljið og geymið inni í kæliskáp í allt að sólarhring.