Kindaragú

Handa 4-6

Ragú, kalla Ítalir kjötsósur sem bornar eru fram með pasta. Þessi tiltekna sósa er kölluð Ragú bianco eða hvít kjötsósa. Síðasta haust áttum við í Árdal nokkuð magn af kindahakki og mysu eftir skyrgerð sem við ákváðum að skipta út fyrir nautahakkið og hvítvínið sem vanalega er í uppskriftinni. Úr varð þetta æðislega kindaragú sem við í Árdal fáum ekki nóg af.

Innihald

1 matskeið smjör
200 grömm beikon, saxað smátt
1 stór laukur, saxaður smátt
1 stór gulrót, söxuð smátt
1 sellerístöng, söxuð smátt
100 grömm tómatpúrra
500 grömm kindahakk
Salt
Nýmalaður pipar
500 millilítar mysa

Leiðbeiningar

Bræðið smjörið í stórum potti yfir lágum hita. Bætið beikoni í pottinn og eldið í stutta stund til að beikonfitan bráðni. Bætið við lauk, gulrót og sellerí og eldið í um 5 mínútur eða þar til allt er orðið mjúkt. Hækkið í miðlungsháan hita og brúnið tómatpúrruna í stutta stund áður en hakkið fer í pottinn. Brjótið hakkið niður í pínulitla bita með sleif og steikið þar til það er ekki lengur rautt á litinn. Saltið og piprið. Hellið mysunni út í og látið malla við mjög vægan hita í að minnsta kosta 2 tíma. Passið að hittinn sé ekki of hár til að sósan brenni ekki við. Bragðið sósuna til.