Fyllt kúrbítsblóm

Ég smakkaði kúrbítsblóm í fyrsta skipti þegar ég nam við French Culinary Institute í New York en þau voru á matseðli veitingastaðar skólans, L’Ecole. Það var þó erfiðleikum bundið að finna blómin utan skólans en af og til sá ég þau til sölu á bændamarkaðinum á Union Square. Eftir að ég fluttist frá New York hef ég hvergi séð þessi fallegu blóm og var það því óvænt ánægja að sjá kúrbítsplöntuna dafna svo vel í litla vermireitnum í Árdal.

Fyrir 4

Innihald

Fyllt kúrbítsblóm
250 grömm heimagerður ricotta
1 lúka af blönduðum kryddjurtum, svo sem oreganó, steinselja, minta, franskt fáfnisgras og fennikuþræðir, fínsaxaðar
2 matskeiðar laukknappar (einnig hægt að nota fínsaxaðan skalottlauk)
Salt og nýmalaður svartur pipar
12 kúrbítsblóm
Fífla- eða hlynsýróp
Blóm af úr sér sprottnu salati, skógarsalat og skjaldflétta til skrauts

Tempura-soppa
2 lítrar djúpsteikingarfeiti
2 eggjarauður
500 millilítrar ískalt sódavatn
1 lúka af klökum
250 grömm hveiti

Leiðbeiningar

  1. Fylling: Setjið ricotta, saxaðar kryddjurtir og laukknappa í litla skál. Kryddið með salti og nýmöluðum svörtum pipar og hrærið öllu saman.
  2. Kúrbítsblóm: Fjarlægið frævurnar úr kvenblómunum og fræflana úr karlblómunum. Fyllið hvert blóm með ricottablönunni en það fer eftir stærð blómanna hversu mikið þarf af fyllingunni, yfirleitt um 1-3 teskeiðar. Lokið blómunum og snúið létt upp á þau til að loka fyllinguna inni.
  3. Tempura: Bræðið feitina í góðum þykkum potti þannig að feitin fylli einungis hálfan pottinn. Hitið hana upp í 180°C og reynið að halda því hitastigi. Lagið tempura-soppuna rétt áður en feitin nær réttu hitastigi. Sláið eggjarauður saman í miðlungsstórri skál og hrærið sódavatninu og klökunum saman við. Bætið öllu hveitinu út í einu og hrærið mjög varlega með gaffli svo úr verði kekkjótt soppa. Hrærið sem allra minnst í soppunni til að koma í veg fyrir glútenmyndun.
  4. Djúpsteiking: Dýfið einu blómi í einu í soppuna og leggið í heita feitina. Ekki djúpsteikja of mörg í einu því þá getur hitinn á feitinni lækkað um of. Dýfið puttunum í soppuna og súldrið henni yfir blómin í pottinum. Þessir dropar af soppu munu loða við blómin og gera þau enn stökkari. Snúið blómunum af og til svo þau brúnist jafnt. Þau eru tilbúin þegar soppan er orðin gullinbrún að lit, um 2 mínútur. Fjarlægið blómin úr pottinum með gataspaða og leggið á eldhúspappír.
  5. Raðið blómunum á diska, súldrið svolitlu fíflasírópi yfir þau og skreytið með blómum af úr sér sprottnu salati, skógarsalati og skjaldfléttu.