Lagkakan hans Jóa

lagkaka

Þessi lagkaka er ómissandi partur af jólahaldi fjölskyldunnar á Heggsstöðum. Negull og gullið síróp ljá botnunum bragð en þeir eru lagðir saman með örþunnu lagi af heimlagaðri rabarbarasultu og smjörkremi. Hún geymist vel í frysti og því auðvelt að bera hana fram með stuttum fyrirvara um hátíðirnar.

Innihald

Í fjórar lagkökur

Botnar
1 kíló hveiti
400 grömm (2 bollar) sykur
2 matskeiðar matarsódi
2 teskeiðar negull
400 grömm smjör, við stofuhita
3 egg
600 grömm (2 bollar) síróp

Smjörkrem
400 grömm smjör, við stofuhita
1 kíló flórsykur
1 egg

Rabarbarasulta

Leiðbeiningar

  1. Botninn: Forhitið ofninn í 180°C. Blandið öllum þurrefnunum saman í hrærivélaskál. Bætið við smjöri, eggjum og sírópi og hrærið öllu vel saman. Látið deigið standa í um 15 mínútur og skiptið því svo í fjóra jafnstóra hluta en hver hluti ætti að vera um 650 grömm. Fletjið út hvern hluta í ferhyrning þannig að hann passi í stóra ofnskúffu og reynið að hafa botnana alla jafnstóra. Bakið í um 10 mínútur eða þar til þeir eru orðnir fallega brúnir. Bakið bara einn botn í einu nema ef þið eruð viss um ofninn ykkar geti bakað tvo botna í einu þannig að þeir bakist jafnt. Látið botnana kólna alveg.

  2. Smjörkremið: Hrærið smjörið í hrærivél og blandið flórsykrinum smátt og smátt út í. Bætið að lokum egginu saman við.

  3. Samsetning: Snúið einum botni á hvolf og smyrjið hann með örþunnu lagi af rabarbarasultu. Snúið öðrum botni á hvolft og smyrjið hann með þriðjungi smjörkremsins. Leggið botnana saman þannig að smjörkremið snúi að sultunni. Smyrjið nú toppinn á kökunni með sultu. Snúið þriðja botninum við og smyrjið hann með þriðjungi smjörkremsins. Leggið hann ofan á kökuna þannig að smjörkremið snúi að sultunni. Endurtakið einu sinni til viðbótar með seinasta botninn.

  4. Skerið kantana utan af kökunni (og njótið þess að borða þá) og skiptið henni síðan í fjóra jafnstóra hluta. Best er að leyfa kökunni að bíða til næsta dags svo botnarnir fái tíma til að mýkjast og draga í sig bragð frá rabarbarasultunni og smjörkreminu. Hún geymist vel í frysti og látið hana þá ná stofuhita áður en hún er borin fram.