Lambamánar

lambamanar Það var margt um manninn þegar heimamenn á Hvanneyri fögnuðu því að 125 ár væru liðin síðan fyrsti nemandinn innritaðist í Búnaðarskólann. Að því tilefni fengum við lánað heimatilbúna grillið hans Arnars rafvirkja og buðum gestum og gangandi upp á fyrsta flokks skyndibita þar sem allt hráefni var beint úr héraði. Grillað brauð með marineruðu lambalæri,  tzatziki sósu, lauk, kirsuberjatómötum og gúrku frá Sólbyrgi, salati úr Árdalsgarðinum og þeir sem höfðu þor fengu eldheita sósu gerða úr chili frá Stellu á Jaðri.

Fyrir um 10 manns, tveir mánar á mann

Innihald

Marinerað lambakjöt
2 kílógrömm úrbeinað lambalæri (milli 2,5-3 kíló með beini)
200 millilítrar ólífuolía
2 sítrónur, bæði safinn og ysti guli börkurinn
4 hvítlauksgeirar, maukaðir
Handfylli af fersku oreganó
Handfylli af fersku timjani

Grillað brauð
200 millilítrar ískalt vatn
200 millilítrar hrein jógúrt
100 grömm bráðið smjör
2 eggjarauður
600 grömm hveiti
1 matskeið sykur
2 teskeiðar salt
1 teskeið þurrger

Tzatziki
1 gúrka, skræld, fræhreinsuð og skorin í litla bita
250 grömm mjög þykk grísk jógúrt
2 matskeiðar jómfrúarolía
1 lúka ferskt dill, fínsaxað
2 hvítlauksgeirar, maukaðir
Salt og pipar

Eldheit sósa
2 matskeiðar ólífuolía
150 grömm rauð chilialdin, toppurinn skorinn af og aldinin fínsöxuð með fræjum
½ laukur, flysjaður og sneiddur þunnt
1 hvítlauksgeiri, marinn
300 grömm vel þroskaðir tómatar, skornir í smáa bita
1 teskeið hunang
2 matskeiðar edik

Grænmeti
500 grömm kirsuberjatómatar, skornir í fernt
2 gúrkur, skornar í fernt eftir endilöngu, fræhreinsaðar og skáskornar
2 litlir rauðlaukar, þunnsneiddir
150 grömm salatblöð

Leiðbeiningar

  1. Marinerað lambalæri – Setjið lambalærið í stóra skál. Blandið saman ólífuolíu, sítrónusafa, sítrónuberki, hvítlauk, oreganó og timjani í lítilli skál. Hellið ¾ af blöndunni yfir lambalærið og geymið restina. Leggið plastfilmu yfir skálina, marinerið kjötið í hálfan sólarhring og snúið því öðru hverju. Hagið kolunum þannig að þau sé aðeins öðru megin í grillinu.  Grillið kjötið til að byrja með yfir háum hita og beint yfir kolunum. Þegar kjötið er orðið fallega brúnt er það fært yfir á þann hluta grillsins sem ekki hefur kol og eldað þar við óbeinan hita. Þegar kjarnhiti kjötsins er 50°C, eftir rúma klukkutíma eldun, er það tekið af grillinu og leyft að hvíla í um 15 mínútur en kjarnhiti kjötsins mun hækka um 5°C á þessum tíma. Fyrir meðalsteikt kjöt takið það af grillinu þegar það er 55°C. Skerið kjötið í munnbita og blandið saman við restina af marineringunni.
  2. Grillað brauð –  Blandið saman vatni, jógúrt, smjöri og eggjarauðum í lítilli skál. Blandið saman hveiti, sykri, salti og þurrgeri í stórri skál. Hrærið blautefnin smám saman við þurrefnin þar til ekkert hveiti sér lengur í skálinni. Flytjið deigið yfir á hveitisáldrað borð og hnoðið það í um 5 mínútur eða þar til það er slétt og fellt. Leggið deigið ofan í olíuborna skál, lokið vel með plastfilmu og látið hefast í kæliskáp í hálfan sólarhring. Skiptið deiginu í 20 jafnstóra hluta og rúllið út eins þunnt og mögulegt er. Grillið brauðin yfir háum hita þar til þau eru fallega brún á lit, um það bil eina mínútu á hvorri hlið. Haldið þeim heitum í stóru viskastykki eða plastpoka.
  3. Tzatziki – Hrærið öllum innihaldsefnunum saman í lítilli skál og geymið inni í kæliskáp í að minnsta kosti klukkutíma og allt að tvo daga.
  4. Eldheit sósa – Hitið olíuna í miðlungsstórum potti yfir miðlungshita. Eldið chilialdin, lauk og hvítlauk í olíunni í um 10 mínútur eða þar til allt er orðið mjúkt. Bætið þá við tómötum og hunangi og látið malla í um 20 mínútur. Slökkvið undir pottinum og leyfið chiliblöndunni að ná herbergishita. Maukið blönduna ásamt ediki í blandara eða matvinnsluvél. Smakkið sósuna til með smá salti og þynnið út með smá vatni eða ediki ef ykkur finnst hún of þykk. Hellið sósunni á krukku og geymið í kæliskáp.
  5. Allt sett saman – Berið brauðin fram með marineruðu lambakjöti, tzatziki sósu, kirsuberjatómötum, gúrkum, rauðlauk, salati og eldheitri sósu fyrir þá sem þora.