Laufabrauð

laufabrauð

Laufabrauð er alveg séríslenskt fyrirbæri sem fyrirfinnst ekki annars staðar í heiminum.  Það sem er sérstakt við það, er hversu næfurþunnt það er. Ástæðan fyrir því eflaust sú að á öldum áður var mjöl af skornum skammti og til að allir gætu fengið brauð að bíta í á jólunum þá var deigið flatt út eins þunnt og mögulegt er.

Innihald

1 lítri mjólk
1 matskeið kúmen
200 grömm smjör, skorið í teninga
1,5 kíló hveiti
4 matskeiðar sykur
1 teskeið hjartasalt
1 teskeið lyftiduft
1 teskeið salt

Leiðbeiningar

  1. Hitið mjólk og kúmen í potti yfir miðlungshita þangað til mjólkin byrjar að freyða.  Sigtið kúmenið frá, bætið smjörinu út í og hrærið í þar til smjörið er bráðnað. Blandið þurrefnunum saman og vætið í með heitri mjólkinni. Hnoðið deigið þar til það er slétt og sprungulaust.

  2. Klípið litla kúlur af deiginu og fletjið út í hring. Gamalt húsráð segir að laufabrauðsdeig á að fletja svo þunnt út að hægt sé að lesa fyrirsagnir fréttablaðanna í gegnum það.  Leggið disk yfir deigið og skerið út fullkominn hring. Staflið deiginu með smjörpappír á milli.

  3. Skerið út mynstur með laufabrauðsjárni eða hníf og pikkið svo í það með gaffli til að koma í veg fyrir stórar loftbólur í brauðinu. Steikið laufabrauðið í 180°C heitri feiti (til dæmis tólg) í stutta stund og snúið því einu sinni við. Takið brauðið úr feitinni þegar það er gullinbrúnt og leggið á eldhúspappír. Leggið meiri eldhúspappír ofan á brauðið og fletjið það út með potti eða öðrum flötum hlut.