Majónes

majones
Majónes er það sem kallast þeyta en það er þegar tveir vökvar sem annars blandast ekki, eins og vatn og olía, bindast saman. Til að bindingin haldist og verði stöðug þarf einhvers konar bindiefni. Í majónesi þá er það lesitín sem er bæði í eggjarauðunni og sinnepinu. Passið að bæta ekki við of mikilli olíu til að byrja með því þá nær lesitínið ekki að binda hana við vatnið í bæði eggjarauðunni og sítrónusafanum.

Gott er að hafa rakt viskustykki undir skálinni svo hún fari ekki á flakk þegar þeytan þykknar.

Í um 200 grömm

Innihald

1 eggjarauða
1 teskeið Dijon sinnep
⅛ teskeið salt
2 teskeiðar sítrónusafi
150 millilítrar bragðlítil olía
1 teskeið kalt vatn

Leiðbeiningar

  1. Hrærið eggjarauðu, sinnepi, salti og sítrónusafa saman í miðlungsstórri skál. Hellið olíunni í mjórri bunu ofurhægt ofan í skálina og hrærið allan tímann með þeytara. Bætið við vatni þegar þeytan er þykk og stíf til að gera majónesið rjómakennt og mjúkt.