Marineruð síld

síld

Við Íslendingar borðum lítið af síld miðað við hvað við veiðum mikið af henni. Helst borðum við hana marineraða yfir jólahátíðina en auðvelt er að búa til sína eigin jólasíld. Fyrst þarf að útvega sér góða saltsíld sem ætti að vera hægt að finna í helstu fiskbúðum.

Með því að blanda saman tveimur hlutum af ediki, einum af vatni eða öðrum vökva og einum af sykri er kominn grunnur að marineringu. Svo er hægt að leika sér með bragðgjafa alveg eftir sínu höfði. Hér eru þrjá útgáfur: ákavítislögur, sem er með mörgum þeim kryddum sem notuð eru til að gefa ákavíti sitt einkennandi bragð; appelsínu- og eplalögur sem er mjög ferskur og svo jólalögurinn, sem minnir mjög á jólaglögg.

Í þrjár miðlungsstórar krukkur

Innihald

5 saltsíldir, útvatnaðar í sólarhring, flakaðar og skornar í bita.
1 laukur eða rauðlaukur, sneiddur þunnt

Ákavítissíld
500 millilítrar 5% borðedik
250 millilítrar vatn
250 grömm sykur
1 matskeið kúmen
1 stjöruanís, brotinn í þrennt
1 teskeið dill
5 einiber
3 kanilstangir, hver um 5 sentímetrar
2 lárviðarlauf
Börkur af hálfri sítrónu

Appelsínu- og eplasíld
500 millilítrar eplaedik
250 millilítrar vatn
250 grömm sykur
2 teskeiðar svört piparkorn
1 teskeið sinnepsfræ
10 stykki negulnaglar
3 lárviðarlauf
Börkur af einni appelsínu

Jólasíld
500 millilítrar eplaedik
250 millilítrar lífrænn vínberjasafi
10 stykki piparkorn
10 stykki negulnaglar
5 stykki kardimommur
3 lárviðarlauf
3 kanilstangir, hver um 5 sentímetrar
Börkur af einni appelsínu

Leiðbeiningar

  1. Blandið öllum innihaldsefnunum saman fyrir marineringuna í litlum potti og náið upp suðu á hæsta hita. Hrærið í og takið pottinn af þegar sykurinn er allur uppleystur. Setjið marineringuna til hliðar og kælið hana alveg niður.

  2. Setjið síldarbitana og lauk í nokkrum lögum í krukkurnar. Hellið marineringunni yfir þannig að hún fljóti yfir síldina og verið viss um að skipta kryddunum jafnt á milli krukknanna.

  3. Geymið síldina í kæli í að minnsta kosti 2 daga en hún verður mýkri og betri eftir því sem á líður. Hún geymist í að minnsta kosti mánuð.